Blak: Þróttur snéri við tapaðri stöðu í Mosfellsbæ

Þróttur styrkti stöðu sína á toppi efstu deildar kvenna í blaki rækilega um helgina þegar liðið vann HK og Aftureldingu á útivelli. Karlaliðið skiptist á sigrum við Aftureldingu.

Kvennaliðið byrjaði á HK á föstudagskvöld og vann þann leik 1-3. HK vann fyrstu hrinuna 25-20 en Þróttur svaraði strax í annarri hrinu með sömu stigatölu.

Þriðja hrinan var mjög jöfn en HK virtist komið með undirtökin í stöðunni 21-17. Þá snéri Þróttur taflinu sér í vil, jafnaði 22-22 og vann hana 24-26. Þróttur seig síðan fram úr í fjórðu hrinu eftir að staðan hafði verið 9-9 og vann hana 22-25.

Ana Vidal, annar þjálfara liðsins, var afar ánægð með leikinn gegn HK. „Ég held að þetta sé besti blakleikur sem ég hef séð síðan ég kom til Íslands. Bæði lið spiluðu mjög vel og ég held að áhorfendur hafi haft gaman af.

Við unnum HK tiltölulega auðveldlega þegar þær komu austur í haust og við vissum að leikurinn nú yrði erfiðari enda var þetta sterkara lið.

Við vorum ekki nógu einbeittar í fyrstu hrinunni auk þess sem Helena Kristín (Gunnarsdóttir) byrjaði út af því hún er nýkomin til okkar. Það komst á meiri stöðugleiki í sókninni eftir að hún kom inn á. Einbeiting óx líka og við spiluðum á köflum mjög vel.“

Aldrei spurning í oddahrinunni

Þróttur mætti Aftureldingu daginn eftir og vann í oddahrinu. Þróttur byrjaði leikinn vel og komst í 12-17 í fyrstu hrinu en missti þá stöðu út úr höndunum á sér og tapaði henni 26-24 eftir afar jafnan lokakafla.

Aðra hrinu vann Afturelding örugglega 25-15 og var síðan með yfirburðastöðu í þriðju hrinu, var yfir 16-8. Þegar staðan var 18-12 fór Ana í uppgjöf og þá hófst endurkoma Þróttar. Liðið jafnaði í 18-18 og þótt Aftureldingu tækist að ná tveggja stiga forustu á ný hvarf það strax aftur og Þróttur vann 24-26.

Þróttur hafði undirtökin í fjórðu hrinunni og vann hana 20-25. Það hafði síðan öll tök á oddahrinunni, komst mest í 3-12 og vann hana 7-15.

„Við byrjuðum vel en leikurinn breyttist í fyrstu hrinu. Við vorum vissulega til staðar á vellinum en það vantaði baráttuna. Hún kom aftur í þriðju hrinunni. Ég held við höfum aldrei unnið upp stærri mun en þar.“

Helena Kristín styrkir hópinn

Leikirnir voru þeir fyrstu hjá Helenu Kristínu eftir fimm ára fjarveru en hún var lykilmaður í hópnum áður en hún fór út til Bandaríkjanna á háskólastyrk til að spila blak.

„Það er mjög gott að fá hana í hópinn. Hún leiðbeinir hinum stelpunum. Eftir veruna í Bandaríkjunum er hún með allt aðra tækni en við hinar. Hún er ekki að reyna að vera stjarna heldur ein af hópnum enda er okkar áhersla á liðið,“ segir Ana.

Með sigrinum jók Þróttur forskot sitt á toppi deildarinnar þar sem Afturelding var í öðru sæti. Vanalega fá sigurlið þrjú stig en þegar leikur fer í oddahrinu fær sigurliðið tvö stig og það sem tapar eitt.

„Við verðum að halda einbeitingunni og halda áfram að vinna. Við vitum ekki hvort önnur lið styrkja sig fyrir vorið en við vitum að þau íhuga það. Við höfum verið að prófa nýja hluti, til dæmis auka hraðann í leik okar. Við erum með ungt lið sem er alltaf að læra.“

Missir þegar Borja veiktist

Í karladeildinni er Afturelding á botninum en Þróttur í fjórða sæti. Liðin mættust tvisvar um helgina og unnu sinn leikinn hvort 3-0.

„Við spiluðum vel í fyrri leiknum en fyrir seinni leikinn veiktist uppspilarinn okkar Borja. Hann var með en hvergi nærri sínu formi og bætti ekki úr skák þegar hann meiddist í baki eftir samstuð við samherja. Það er alltaf mikil breyting að hafa uppspilarann ekki heilan auk þess sem Afturelding lék mun betur í seinni leiknum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.