Blak: Þróttur lagði Aftureldingu í fyrsta leik - Myndir

Þróttur er kominn með forskot á Aftureldingu í einvígi liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna eftir 3-1 sigur í fyrsta leiknum í Neskaupstað í gærkvöldi. Þjálfari Þróttar segir liðið þó þurfa að bæta sig töluvert fyrir næsta leik á miðvikudag.

Þróttur hafði undirtökin framan af fyrstu hrinu, var yfir 9-4 áður en Afturelding jafnaði í 12-12. Þróttur náði aftur fjögurra stiga forskoti, 16-12 en Afturelding jafnaði í 18-18. Þá loks sleit Þróttur sig frá og vann hrinuna 25-21.

Í annarri hrinu hafði Þróttur yfirburði og skoraði fyrstu fimm stigin. Sá munur hélst fram að miðri hrinu að Þróttur var kominn í sjö stiga forskot.

Afturelding var í vandræðum með móttökuna og sýnilegir veikleikar voru bæði í uppspili og uppgjöfum. Þá spilaði Þróttur fína vörn þegar á þurfti að halda og sömuleiðis sókn. Boltinn gekk nokkuð hratt og erfitt var fyrir Aftureldingu að átta sig hvert Ana Vidal myndi spila boltanum.

Þannig skoraði Þróttur laglegt stig í stöðunni 17-10, hratt spil út til hægri þar sem Særún Birta Eiríksdóttir kom úr djúpinu og hafði nægt pláss á vallarhelmingi gestanna til að senda boltann niður í. Alltaf virtust til lausnir gegn mótspilum Aftureldingar.

Munurinn í hrinunni varð minnstur 18-15 en þá gaf Þróttur í og vann hrinuna 25-17. Síðustu tvö stigin komu eftir að Velina Apostolova, sem er alin upp í Neskaupstað, smassaði boltanum tvisvar í netið.

Slokknar á Þrótti

Taflið snérist við í þriðju hrinunni þar sem Afturelding komst í 0-5. Fyrsta stig Þróttar kom þegar dæmd var seiling á sóknarmann Aftureldingar en í kjölfarið fylgdu fjögur önnur þannig að staðan var jöfn. Afturelding náði hins vegar strax aftur þriggja stiga forskot sem jókst þegar á leið og varð mest í stöðunni 13-21.

Grunnurinn að viðsnúningnum var stórbætt vörn Aftureldingar. Varnarleikur Þróttar var hins vegar í molum, framan af virtist vera einbeitingarleysi og misskilningur. Slök móttaka varð til þess að Þróttur náði sjaldan að stilla upp í almennilegar sóknir.

Staðan lagaðist eftir að María Bóel Guðmundsdóttir kom inn fyrir Paulu Gomez í stöðunni 12-19 en hrinan endaði 20-25 eftir að uppgjöf Aftureldingar sigldi í gólfið hjá Þrótti.

Þróttur sterkari er á reyndi

Afturelding var með frumkvæðið í fjórðu hrinu þar til staðan var 9-10, þá skoraði Þróttur fjögur stig í röð. Gestirnir hressust nokkuð eftir að hafa tekið leikhlé. Þeir voru við að jafna í 15-15 en annar dómaranna, sem var vel staðsettur, taldi boltann hafa farið í hávörnina og út sem þýddi að Þróttur komst í 16-14.

Þróttur virtist með góð tök á leiknum og komst í 19-14 en þá kom frábær kafli Aftureldingar og munurinn minnkaði í 21-20.

Í stöðunni 22-21 vildi Helena Kristín Gunnarsdóttir fá dæmt að smass hennar hefði farið í hávörnina og út. Hún fékk það ekki þá en þegar sama staða kom upp í næstu sókn á eftir féll dómurinn hennar megin. Aftur komst Þróttur í tveggja stiga forskot í stað þess að Afturelding jafnaði. Þar með var björninn unninn og Þróttur kláraði hrinuna 25-21.

Paula Gomez var stigahæst Þróttar með 19 stig og Helena Kristín Gunnarsdóttir skoraði 18. Hinu megin var Hayley Hampton langstigahæst með 19 stig en hávörn Þróttar var í bullandi vandræðum með hana.

Í liði Aftureldingar var einnig María Rún Karlsdóttir, sem spilaði með Þrótti í fyrra. Hún hefur lítið getað leikið vegna meiðsla í vetur. Það sást á leik hennar í gær að hún á nokkuð í land með leikæfinguna en að sama skapi fagnaði enginn innilegar en hún þegar hlutirnir gengu upp.

Þurfum að bæta vörnina

„Það voru hæðir og lægðir hjá okkur í þessum leik, ég átta mig betur á hvað gerðist þegar ég horfi á leikinn aftur,“ sagði Borja Gonzales, þjálfari Þróttar, eftir leikinn.

„Við spiluðum vel í annarri hrinu en ég veit ekki hvað breyttist í þeirri þriðju. Við vörðumst ekki, uppgjafirnar voru ekki góðar og ég veit ekki hvort við vorum taugaóstyrk.

Ég tók Paulu út af því sendingarnar hjá henni voru ekki nógu góðar og hún var að gera mistök. Frá bekknum gat hún séð leikinn á annan hátt. María Bóel stóð sig mjög vel þegar hún kom inn á en Paula er reyndari og þess vegna byrjaði hún inn á fjórðu hrinu.

Helena og Særún spiluðu mjög vel en í þessu liði verða allir leikmenn að skora, annars getum við lent í vandræðum.

Við vitum að það tekur á taugarnar að spila úrslitaviðureignir og við erum trúlega með yngsta lið deildarinnar. Við setjum samt ótrauð stefnuna á að vinna í Mosfellsbæ á miðvikudag og klára titilinn hér heima á föstudagskvöld.“

Þróttur hefur haft nokkuð gott tak á Aftureldingu í vetur. „Þær spiluðu sennilega bestu vörnina sem þær hafa sýnt gegn okkur í vetur. Eins átti díóinn þeirra (Haley) sinn besta leik. Hún mætti boltanum mjög hátt og það var erfitt að stöðva hana. Okkur gekk vel að stöðva miðjuna hjá Aftureldingu en við verðum að laga vörnina gegn díóinum.“

Blak Throttur Umfa Leikur1 April18 0005 Web
Blak Throttur Umfa Leikur1 April18 0014 Web
Blak Throttur Umfa Leikur1 April18 0023 Web
Blak Throttur Umfa Leikur1 April18 0028 Web
Blak Throttur Umfa Leikur1 April18 0040 Web
Blak Throttur Umfa Leikur1 April18 0053 Web
Blak Throttur Umfa Leikur1 April18 0057 Web
Blak Throttur Umfa Leikur1 April18 0058 Web
Blak Throttur Umfa Leikur1 April18 0065 Web
Blak Throttur Umfa Leikur1 April18 0073 Web
Blak Throttur Umfa Leikur1 April18 0081 Web
Blak Throttur Umfa Leikur1 April18 0084 Web
Blak Throttur Umfa Leikur1 April18 0091 Web
Blak Throttur Umfa Leikur1 April18 0092 Web
Blak Throttur Umfa Leikur1 April18 0103 Web
Blak Throttur Umfa Leikur1 April18 0105 Web
Blak Throttur Umfa Leikur1 April18 0106 Web
Blak Throttur Umfa Leikur1 April18 0110 Web
Blak Throttur Umfa Leikur1 April18 0112 Web
Blak Throttur Umfa Leikur1 April18 0122 Web
Blak Throttur Umfa Leikur1 April18 0124 Web
Blak Throttur Umfa Leikur1 April18 0133 Web
Blak Throttur Umfa Leikur1 April18 0135 Web
Blak Throttur Umfa Leikur1 April18 0140 Web
Blak Throttur Umfa Leikur1 April18 0150 Web
Blak Throttur Umfa Leikur1 April18 0152 Web
Blak Throttur Umfa Leikur1 April18 0157 Web
Blak Throttur Umfa Leikur1 April18 0165 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.