Orkumálinn 2024

Blak: Of mörg mistök í fyrsta leiknum gegn HK

Lið Þróttar er undir í viðureign liðsins gegn HK í undanúrslitum Íslandsmóts karla í blaki eftir 3-1 ósigur í fyrsta leik liðanna í Kópavogi í gærkvöldi. Þjálfari Þróttar segir ýmislegt hafa farið úrskeiðis sem laga verði sem fyrst.

Þrátt fyrir að HK hafi unnið leikinn nokkuð sannfærandi voru hrinurnar afar jafnar, HK vann fyrstu 25-23, aðra 25-21 en Þróttur þá fjórðu 24-26 í upphækkun eftir að hafa verið 23-21 undir. HK var hins vegar öflugra þegar á reyndi í lokin, 25-18.

„Ég get ekki sagt við höfum spilað illa en ég er vitaskuld ekki ánægð,“ segir Ana Vidal, þjálfari Þróttar.

„Við vorum í vandræðum með blokkina. Við stöðvuðum miðjumanninn en gekk illa með kantmennina því blokkin okkar var á röngum stað.

Við gerðum of mörg mistök, ekki því við værum að taka áhættu, heldur virtist okkur skorta einbeitingu eða sjálfstraust. Mistökin urðu seint í hrinunum þegar leikurinn var jafn, þegar þú gerir 2-3 mistök í röð þá er erfitt að vinna. Eins fóru margar uppgjafir úrskeiðis hjá okkur.

Við gerðum líka góða hluti, mótttakan var góð og við spiluðum að mestu eftir því sem við lögðum upp með. Blak er hins vegar hröð íþrótt og samskiptin inni á vellinum verða að vera góð til að bregðast við því sem er að gerast. Það er nokkuð sem við kunnum ekki enn, okkur gengur illa að finna lausnirnar hratt og lítið breytist þegar eitthvað gerist sem ekki var reiknað með,“ segir Ana.

Hún segir ungan aldur liðsmanna skýra þar margt en fyrir utan Spánverjana tvo treystir Þróttur á fimm stráka um tvítugt. Þeir séu efnilegir en skorti enn keppnisreynslu.

Liðin mætast aftur í Neskaupstað annað kvöld klukkan 20:00. Þróttur verður að vinna á morgun til að knýja fram oddaleik sem yrði þá spilaður á sunnudag.

„HK spilaði vel í gær en við tökum létta æfingu í kvöld og vonumst svo til að taka skrefið áfram. Við höfum spilað vel gegn HK í vetur og ég er sannfærð um að við getum unnið. Við verðum að hafa trú á okkur og laga mistökin sem við gerðum í gær.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.