Blak: Keppa áfram um fjórða sætið

Þrótti mistókst að slíta sig frá Aftureldingu í baráttunni um fjórða sætið í Mizuno-deild karla í blaki. Liðin unnu sinn leikinn hvort þegar þau mættust í Neskaupstað um helgina.

Þróttur vann fyrri leikinn á föstudagskvöld 3-1. Þróttur hafði yfirburði í fyrstu tveimur hrinunum, vann þær 25-17 og 25-21.

Afturelding vann þriðju hrinuna 17-25 en Þróttur kláraði þá fjórðu 25-17.

Segja má að seinni leikurinn á laugardag hafi verið spegilmynd af þeim fyrri. Fyrst hrinan var reyndar mjög jöfn en hana vann Afturelding í upphækkun 24-26.

Gestirnir unnu næstu hrinu 13-25 áður en Þróttur svaraði með 25-20 sigri. Það dugði samt ekki til að kveikja í liðinu og Afturelding vann fjórðu hrinuna 15-25 og leikinn þar með 1-3.

Miguel Castrillo var atkvæðamestur Norðfirðinga í leikjunum tveimur, skoraði 37 stig í fyrri leiknum en 31 í þeim seinni, alls 68 stig yfir helgina og er fyrir vikið stigahæsti maður deildarinnar.

Liðin berjast um fjórða sæti deildarinnar sem er það síðasta til að veita þátttökurétt í úrslitakeppninni í vor. Þróttur er í sætinu með 11 stig úr 12 leikjum en Afturelding er í fimmta sæti með níu stig úr 13 leikjum. Liðin hafa nú mæst fjórum sinnum á stuttum tíma og skipt með sér sigrunum.

Úr leiknum á laugardag. Mynd: Jón Guðmundsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.