Blak: Karlalið Þróttar úr leik í bikarnum: Spiluðum ekki okkar besta leik

Karlalið Þróttar er úr leik í bikarkeppninni í blaki eftir að hafa tapað fyrir Stjörnunni í oddahrinu í Neskaupstað í gær. Þjálfari liðsins segir Þróttarliðið hafa skort sjálfstraust til að klára leikinn.


Stjarnan vann fyrstu hrinuna 20-25 en Þróttur svaraði fyrir sig 25-22. Þriðja hrinan var afleit hjá Þrótti enda tapaðist hún 13-25 en sú fjórða vannst 25-22 og því tók við oddahrinan.

Stjarnan vann hana 11-15 eftir svakalegan endasprett en Þróttur var 10-9 yfir.

Eins og sjá má á tölunum var leikurinn jafn og spennandi en Ana Vidal, þjálfari Þróttar var ekki sátt með frammistöðu liðsins eftir leikinn og sagði Þróttara hafa grafið sína eigin gröf.

„Við vorum búin að skoða Stjörnuliðið vel og vissum hvernig það myndi spila en samt gerðum við ekki það sem lagt var upp með. Þótt við vissum hvernig þeirra besti maður spilaði stöðvuðum við hann ekki.

Á síðustu mínútunum misstum við einbeitinguna og gerðum mistök. Stundum gerðum við mistök því við vorum að reyna að gera ekki mistök. Sá skortur á sjálfstrausti varð að mistökum. Við óttuðumst að smassið yrði varið og reyndum þess vegna að lauma boltanum og þess háttar.

Við ollum Stjörnunni ekki þeim vandamálum sem við hefðum átt að geta valdið. Þetta var ekki okkar besti leikur sem liðs. Okkur skortir reynslu og virtumst ekki trúa að við gætum stöðvað þá. Ef þú trúir ekki á sjálfan þig þá er ekkert sem þú getur gert.

Jorge (Basualdo) var mjög öflugur hjá okkur en það gengur ekki að treysta á einn mann. Þannig vinnast ekki leikir. Stjarnan spilaði góða hávörn sem beið alltaf eftir Jorge. Það hefði þurft að opna hana betur með fleiri kostum.“

Ana gagnrýndi líka fyrirkomulag bikarkeppninnar. „Við töluðum við þjálfara Stjörnunnar eftir leik og hann tók undir það með okkur að það væri mistök að vera með bikarkeppnina.

Í fótbolta getur versta liðið unnið besta leikinn en í blaki tapar alltaf veikara lið gegn sterkara. Nú er staðan sú að fjögur efstu liðin í deildinni mætast í undanúrslitum. Sú úrslitakeppni sem sýnd verður í sjónvarpinu verður því verri fyrir vikið. Ég er meira svekkt yfir því en leiknum sjálfum. Ég veit að við verðskuldum að vera í undanúrslitum.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.