Blak: Fyrsti leikur úrslitanna í kvöld

Þróttur tekur á móti Aftureldingu í Neskaupstað í kvöld í fyrsta leik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna. Fyrirliði Þróttar segir heimavöllinn og stuðning áhorfenda í Neskaupstað skipta miklu máli.

„Ég held að það sé mjög erfitt að koma til Neskaupstaðar og spila hér. Áhorfendur fjölmenna og hafa hátt sem hjálpar okkur,“ segir Særún Birta Eiríksdóttir, fyrirliði Þróttar.

Liðin leika í kvöld sinn fyrsta leik en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki verður Íslandsmeistari. Leikið er annan hvern dag þar til úrslitin eru fengin.

Þróttur hefur þegar náð deildar- og bikarmeistaratitlinum. Til þess þurfti liðið að vinna Aftureldingu en Þróttur hefur unnið allar viðureignir liðanna á tímabilinu.

„Það hefur vitaskuld áhrif hvernig við og aðrir horfa á leikinn fyrirfram en það getur allt gerst. Þær eru mjög sterkar og við spiluðum einstaklega langa hrinu gegn þeim um daginn.“

Vika er síðan Þróttur sló HK út í undanúrslitum og hefur tíminn síðan verið nýttur til að kortleggja næstu andstæðinga. „Við vitum hvert þær senda og smassa. Við þurfum að passa miðjuna, uppspilarann og díóinn. Ef við náum að stoppa boltann þar gengur okkur betur.“

Þróttur spilaði síðasta leikinn gegn HK án Heiðu Elísabetar Gunnarsdóttur sem var veik. Særún segir hins vegar að allir leikmenn Þróttar séu klárir í leikinn í kvöld.

„Það breytti leik okkar aðeins að vera ekki með Heiðu. Stelpurnar sem komu inn í staðinn stóðu sig mjög vel og það er gott að vita til þess að allir séu tilbúnir að koma inn á.“

Leikurinn hefst klukkan 20:00 í Íþróttahúsinu í Neskaupstað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.