Blak: Búnar að stúdera HK-liðið

Þróttur og HK mætast í Neskaupstað í kvöld í fyrst leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í blaki. Fyrirliði Þróttar segir Norðfjarðarliðið vera búið að leggja mikla vinnu í að kortleggja andstæðinga sína.

„Við erum mjög spenntar fyrir leiknum. Við erum búnar að stúdera HK liðið, þessi vika og síðasta hafa mikið til farið í að horfa á myndbönd af þeim og undirbúa viðbrögð við þeirra leik. Vonandi er það nóg,“ segir Særún Birta Eiríksdóttir, fyrirliði Þróttar.

Þróttur er þegar búinn að ná í bikar- og deildarmeistaratitil í ár. HK er hins vegar ríkjandi Íslandsmeistari frá í fyrra. Liðið styrkti sig í byrjun mars þegar Hanna María Friðriksdóttir, miðjumaður, snéri heim frá Noregi.

„Þær hafa verið á uppleið í vetur og styrktust með Hönnu Maríu sem er mjög góður miðjumaður og með góðar uppgjafir. Við horfum hins vegar mest á kantmennina þeirra,“ segir Særún.

Tæpur mánuður er frá síðasta leik Þróttar. Eftir hvíldina eru mest allir leikmennirnir heilir og tilbúnir í rimmuna við HK. Hrafnhildur Ásta Njálsdóttir hefur að mestu náð sér eftir að hafa snúið sig á ökkla í úrslitum bikarsins.

Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst í úrslit. Liðin mætast aftur í Kópavogi á laugardag og Neskaupstað á mánudag. Fyrir þá sem ekki komast á Norðfjörð í kvöld má benda á SportTV og sjónvarpsrás 213.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.