Austfirskur landsliðsmaður í bandý: Grunnurinn úr fótboltanum nýtist ágætlega

Seyðfirðingurinn Birkir Pálsson var nýverið í landsliði Íslands sem tók þátt í forkeppni Evrópumótsins í bandý. Birkir er kunnari Austfirðingum sem fyrirliði knattspyrnuliðs Hugins til margra ára en hann lagði fótboltaskóna á hilluna að loknu síðasta tímabili.

„Ég varð að finna eitthvað annað fyrst ég komst ekki í fótboltalandsliðið,“ segir Birkir í samtali við nýjasta tölublað Austurgluggans og hlær. Riðill Íslands var leikinn í Valniera, 27 þúsund manna háskólabæ sem er 100 km norðaustur af höfuðborginni Ríga. Í riðlinum voru að auki Rússar, Ungverjar, Ítalir, Svisslendingar og heimamenn.

Ljóst var að róðurinn yrði erfiður. Bandý er til þess að gera nýleg íþrótt hérlendis og aðeins einu sinni áður hefur landsliðið spilað í forkeppninni. Þá voru mótherjarnir sterkir, Lettar sjöundu á heimslistanum og Svisslendingar með bronslið úr síðustu heimsmeistarakeppni.

Íslenska liðið byrjaði á að spila við Rússa og tapaði naumlega en liðin mættust einnig í síðustu forkeppni. Liðið stóð í Sviss og Lettum í byrjun en réði svo ekki við aflið. Lokaleikurinn gegn Ungverjum tapaðist en hápunkturinn var sigur á Ítölum en þann leik bar upp á afmælisdag Birkis.

Í fyrstu línu gegn Sviss og Lettlandi

Nokkur ár eru síðan Birkir byrjaði að stunda bandý með vinum sínum á Fljótsdalshéraði meðan hann bjó á Egilsstöðum. „Ég held að Árni Pálsson hafi platað mig til að byrja að mæta á æfingar með Bandýsveit Fljótsdalshéraðs,“ rifjar Birkir upp.

Eftir að hann flutti aftur suður til Reykjavíkur fór hann að mæta á æfingar hjá bandýdeild HK, sem er sú öflugasta á landinu. Góð frammistaða hans vakti athygli landsliðsþjálfarans. „Við erum með íslensk-sænskan þjálfara sem býr í Svíþjóð. Hann kom til landsins og var með æfingahelgi. Eftir hana vildu þeir sem eru í forsvari hjá HK fá mig í æfingahóp landsliðsins.“

Birkir var síðan valinn í 20 manna hóp sem minnkaði í 18 manns fyrir Lettlandsferðina vegna meiðsla. Í hópnum voru bæði leikmenn frá Íslandi en einnig leikmenn af íslenskum ættum sem spila í Svíþjóð. Þar er bandý vinsæl íþrótt og að spila í efstu deildinni þar jaðrar við atvinnumennsku.

Bandý svipar að miklu til íshokkí. Leiktíminn er 20 mínútur í senn og leikhlutarnir þrír. Sex leikmenn eru inn á í hvoru liði, markvörður og fimm útileikmenn. Tveir eru í vörn, einn á miðju og tveir frammi. Hverju liði er skipt upp í minni lið, línur, og er línunum skipt út eftir hvernig leiknum vindur fram. Birkir var í þriðju línunni.

„Þjálfarinn breytti línunum nokkuð fyrir leikinn gegn Lettum og leyfði okkur sem spiluðum minnst að spila mikið þar, eins gegn Sviss, en ég spilaði minna gegn Ítölunum. Við áttum tvo þokkalega leikhluta gegn Svisslendingum en þeir keyrðu svo yfir okkur í þeim síðasta. Leikurinn gegn Lettum var svipaður, við stóðum okkur vel fyrsta kortérið en svo röðuðu þeir á okkur mörkum á 5-6 mínútna kafla.“

Kemur í ljós hve mikið maður saknar fótboltans

Í bandýinu spilar Birkir sem framherji sem kemur kannski þeim sem þekkja hann úr fótboltanum á óvart því þar spilaði hann ávallt vörn. „Grunnurinn úr fótboltanum nýtist ágætlega í taktíkinni, ég hef varnarhreyfinguna og veit hvar ég á að staðsetja mig en vantar á móti tækni með kylfuna.“

Sem fyrr segir ákvað Birkir, sem er fæddur árið 1983, að leggja knattspyrnuskóna á hilluna að loknu síðasta tímabili. Hann var fyrirliði Hugins síðustu fjögur tímabil en lék einnig með Hetti og þjálfaði liðið í stuttan tíma auk þess að spila sex tímabil með Þrótti Reykjavík, þar af tvö í úrvalsdeild.

„Það voru breyttar aðstæður í lífinu. Fótboltinn tekur mikinn tíma frá manni, allar helgar frá í byrjun maí fram í miðjan september. Svo kemur í ljós um mitt sumar hve mikið maður saknar fótboltans,“ segir Birkir.

Hann hefur ekki ákveðið framhald bandýferilsins: „Þetta er spurning um að hætta á toppnum,“ segir hann kíminn. „Ég sprikla tvisvar í viku og það er oftast nær gaman. Maður getur að minnsta kosti bætt sig í því. Það eru tvö ár í næstu forkeppni, ég set kannski stefnuna á hana.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.