Orkumálinn 2024

„Alltaf verið mitt takmark að vinna Freyjumenið“

„Mér hefur alltaf gengið mjög vel, en við Jana sem lenti í öðru sæti núna, höfum skipst á að vinna síðan við byrjuðum báðar að keppa,“ segir Kristín Embla Guðjónsdóttir, en hún og Ásmundur Hálfdán Ásmundsson sigruðu bæði fyrir hönd UÍA í Íslandsglímuinni sem fram fór í Reykjavík um helgina.


Hundraðasta og áttunda Íslandsglíman fór fram í íþróttahúsi Kennararaháskólans síðastliðin laugardag. Á síðu Glímusambands Íslands segir að keppnin hafi verið afar jöfn og skemmtileg.

Sem fyrr segir sigraði Ásmundur Hálfdán glímuna um Grettisbeltið og hlaut þar með sæmdarheitið glímukóngur Íslands í þriðja sinn. Kristín Embla sigraði glímuna um Freyjumenið og hlaut sæmdarheitið glímudrottning Íslands í fyrsta sinn.

Heiðursgestir mótsins voru Guðni Th. Jóhannesson Forseti Íslands og Lilja Alfreðsdóttir Mennta- og menningamálaráðherra og sá þau um að afhenda keppendum verðlaun í mótslok.

Æfir júdó á Akureyri
„Ég byrjaði að æfa glímum um leið og ég mátti, í fimmta bekk, þá tíu ára gömul. Það var nú bara af því að frændi minn var að þjálfa og ég dró Bylgju frænku mína með mér og vorum við bara tvær stelpur til að byrja með. Mér fannst þetta svo gaman að ég hélt áfram,“ segir Kristín Embla í samtali við Austurfrétt.

Kristín Embla er að klára sitt þriðja á í Menntaskólanum á Akureyri, en engar glímuæfingar eru í bænum. „Þar hef ég verið að æfa júdó, sem gengur út á það sama, að koma andstæðingnum í gólfið. Það hefur verið skemmtileg tilbreyting og hjálpað mér að halda mér í formi. Ég er ekki frá því að það hafi verið til bóta, en ég hef nálgast íþróttina frá öðru sjónarhorni.“

Þetta er í fyrsta skipti sem Kristín Embla vinnur Íslandsglímuna, enda aðeins 18 ára gömul. „Ég hefði örugglega komist nálægt því í fyrra en var veik. Þetta er auðvitað stærsta glímumótið á Íslandi og alltaf verið mitt takmark að vinna Freyjumenið. Engir þyngdarflokkar eru á þessu móti þannig að maður er bara að keppa við allar konurnar, en að þessu sinni vorum við átta.“

Kristín Embla er með framtíðarmarkmiðin í glímunni á hreinu. „Það er bara að verja titilinn að ári, sem og að fara erlendis og vinna titla í Backhold og Gouren,“ segir hún, sem einmitt heldur utan í byrjun apríl þar sem hún keppir ásamt fleiri íslenskum glímuköppum á Evrópumóti unglinga í Englandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.