Orkumálinn 2024

Knattspyrna: Hattarmenn gjörsigruðu Dalvík/Reyni – Garðar skoraði þrjú

fotbolti hottur hrafnkell bikar 0005 webHattarmenn hafa heldur betur fundið markaskóna sína í síðustu tveimur leikjum í 2. deild karla. Á sunnudag unnu þeir KF 3-4 á útivelli og í gærkvöldi skoruðu þeir fimm mörk framhjá lánlausu liði Dalvíkur/Reynis, sem kom í heimsókn á Vilhjálmsvöll.

Óhætt er að segja að Hattarmenn hafi verið í góðu stuði í gær. Garðar Már Grétarsson skoraði fyrsta mark leiksins eftir fimm mínútur og Brynjar Árnason bætti svo við öðru marki á 20. mínútu. Garðar skoraði svo sitt annað mark á 33. mínútu og staðan í hálfleik 3-0, heimamönnum í vil.

Runólfur Sveinn Sigmundsson bætti svo við fjórða markinu á 49. mínútu og mínútu síðar fullkomnaði Garðar Már þrennuna og kom Hattarliðinu í 5-0. Það urðu lokatölur leiksins og með sigrinum stíga Hattarmenn stórt skref í átt að því að gulltryggja veru sína í 2. deild karla, en þeir eru nú í 6. sæti deildarinnar, sjö stigum á undan Ægi sem vermir 11. sætið.

„Held að þeir hafi ekki átt færi”

Garðar Már Grétarsson var ánægður með mörkin sín þrjú og sigurinn í gærkvöldi. Hann segir yfirburði Hattarmanna í leiknum hafa verið mikla og að andstæðingarnir hafi ekki veitt mikla mótspyrnu. „Ég held að þeir hafi ekki átt færi né góða sókn í þessum leik,“ segir Garðar í samtali við Austurfrétt.

Hattarliðið hafði ekki skorað mikið á tímabilinu en hafa nú skorað 9 mörk í síðustu tveimur leikjum. „Síðan í Ægisleiknum erum við búnir að pressa, báða leikina eftir það. Við lágum til baka á móti Ægi en núna pressuðum við bara og vorum miklu ákveðnari og nær mönnum og vorum að vinna boltann framarlega og sækja svo.”

Nú eru þrír leikir eftir af tímabilinu og Hattarmenn komnir nokkuð frá mesta hættusvæðinu. „Þetta er ekki alveg komið, við erum ekki alveg hólpnir, hin liðin gætu náð okkur ef við töpum rest, en það var mjög þægilegt að vinna í gær og gegn KF í síðustu viku og fara upp fyrir þá,” segir Garðar.

Mynd: Garðar Már í baráttu við leikmenn Hrafnkels Freysgoða í bikarnum í vor

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.