Knattspyrna: Fjarðabyggð úr leik í úrslitakeppninni – Leiknir og Huginn unnu sína leiki

QM1T0956Knattspyrnusumrinu lauk hjá kvennaliði Fjarðabyggðar í gær þegar liðið heimsótti ÍA á Skipaskaga í seinni leik liðanna í 8-liða úrslitum 1. deildar kvenna. ÍA-stúlkur reyndust of stór biti fyrir Fjarðabyggð og liðið tapaði leiknum 3-0, en leikur liðanna á Norðfjarðarvelli á laugardag fór einnig 3-0 og því unnu ÍA samanlagt 6-0.

Spennan í 2. deild karla er algjörlega rafmögnuð. Toppliðin þrjú unnu öll sína leiki í gærkvöldi svo að staðan á toppi deildarinnar er óbreytt. ÍR unnu Njarðvíkinga á heimavelli með einu marki gegn engu og Leiknir og Huginn sóttu góða sigra á Hornafjörð og í Vesturbæinn.

Topplið Leiknis vann Sindra 1-3 á Höfn. Leiknismenn komust í 0-2 í fyrri hálfleik með mörkum fra Tadas Jocys og Björgvini Stefáni Péturssyni. Sindramenn misstu svo leikmann út af á 45. mínútu, en þrátt fyrir það náðu þeir að minnka muninn þegar um tíu mínútur lifðu leiks. Paul Bogdan Nicolescu gulltryggði svo sigurinn og áframhaldandi veru Fáskrúðsfirðinga í toppsætinu með marki í uppbótartíma.

Seyðfirðingar héldu í Vesturbæinn og mættu þar KV. Huginsmenn töpuðu gegn Njarðvíkingum í síðustu umferð og máttu alls ekki við því að tapa gegn KV. Það byrjaði ekki vel hjá Huginsmönnum, því að KV komst yfir eftir tólf mínútna leik. Orri Sveinn Stefánsson jafnaði þó leikinn á 25. mínútu en síðan urðu Huginsmenn fyrir áfalli snemma í síðari hálfleik þegar Elmar Bragi Einarsson fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Huginsmenn brugðust hinsvegar vel við því og Fernando Calleja kom þeim yfir nokkrum mínútum seinna. KV jafnaði leikinn þegar um tuttugu mínútur voru eftir, en Ingólfur Árnason reyndist bjargvættur Seyðfirðinga og skoraði sigurmarkið á 84. mínútu.

Algjörlega frábær sigur hjá Huginsmönnum, sem eru nú enn í þriðja sæti deildarinnar, stigi á eftir ÍR og tveimur stigum á eftir toppliði Leiknis.

Mynd: Huginsmenn fagna

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.