Knattspyrna: Lokaspretturinn í 2. deild karla – Fara Huginn og/eða Leiknir upp?

leiknir huginn03Fjögur lið berjast um tvö efstu sætin í 2. deild karla í knattspyrnu, er fimm umferðir eru óleiknar. ÍR, Huginn og Leiknir hafa skipst á því að skjóta sér á toppinn í sumar en nú er staðan sú að ÍR er með 40 stig, Huginn 39 og Leiknismenn 38. Knattspyrnufélag Vesturbæjar, KV, hefur svo komið bakdyramegin inn í toppbaráttuna með góðum úrslitum á seinni hluta tímabilsins og hefur 32 stig í fjórða sæti.

Ljóst er að seinustu fimm umferðirnar verða gríðarlega spennandi þar sem liðin fjögur eiga eftir að leika marga leiki innbyrðis. Austfirsku liðin hafa örlög sín algjörlega í eigin höndum.

ÍR
Afturelding (H)
Njarðvík (H)
Leiknir (Ú)
Huginn (Ú)
KV (H)

ÍR-ingar leika í kvöld gegn Aftureldingu og ljóst að margir Austfirðingar vilja innilega sjá Breiðholtsliðið tapa þeim leik. Síðustu þrír leikirnir hjá ÍR eru gegn hinum toppbaráttuliðunum og ljóst að liðið á ærið verk fyrir höndum vilji það fara upp um deild, enda hafa hvorki Seyðfirðingar né Fáskrúðsfirðingar tapað leik á heimavelli í sumar!

Huginn
Njarðvík (H)
KV (Ú)
KF (Ú)
ÍR (H)
Sindri (Ú)

Huginmenn eiga eftir að fara í Vesturbæinn og fá svo ÍR-inga í heimsókn í næstseinustu umferðinni. Annars eiga Huginsmenn leiki gegn liðum sem eru botnbaráttu (Njarðvík og Sindra) og KF, sem er rétt fyrir ofan botnbaráttupakkann og hefur verið á ágætu skriði að undanförnu. Huginsmenn þurfa að fara með hausinn rétt skrúfaðan á inn í næsta leik gegn Njarðvík, enda alltaf að spila gegn liðum sem eru að berjast fyrir lífi sínu í deildinni.

Leiknir
KV (Ú)
Sindri (Ú)
ÍR (H)
Ægir (H)
Höttur (Ú)

Leiknismenn heimsækja Vesturbæinga í næstu umferð og mikilvægi þess leiks fyrir Fáskrúðsfjarðarliðið er gríðarlegt. Ef að Leiknismenn tapa þeim leik og ÍR og Huginn sigra sína væru Leiknismenn allt í einu komnir fjórum stigum frá öðru sætinu. Það gæti reynst erfitt. Leiknisliðið fær svo ÍR-inga og Ægismenn í heimsókn í Fjarðabyggðarhöllina og þarf einnig að fara í tvær strembnar ferðir á Hornafjörð og til Egilsstaða.

KV
Leiknir (H)
Huginn (H)
Njarðvík (Ú)
KF (H)
ÍR (Ú)

Þrátt fyrir KV sé töluvert á eftir hinum liðunum eru Vesturbæingar sennilega það lið sem mest áhrif getur haft á toppbaráttuna, en í næstu tveimur leikjum fá þeir Leikni og Huginn í heimsókn í Vesturbæinn. Í seinustu umferðinni fara KV svo í heimsókn í Breiðholtið til ÍR-inga. Því má ekki afskrifa Vesturbæjarliðið strax, þrátt fyrir að sjö stig séu á milli þeirra og Huginsmanna.

Fallbaráttan
Þrátt fyrir að lið Hattar sitji í sjöunda sæti í þessari tólf liða deild, er liðið hvergi nærri öruggt með að halda sæti sínu. Hattarmenn eru með 19 stig en Njarðvík, sem er í 11. sæti deildarinnar, er með 16 stig. Á milli Hattar og Njarðvíkur eru svo Sindri, Ægir og Tindastóll. Reikna má með að þessi fimm lið verði í stífri baráttu allt fram á seinustu stundu um að forðast það að fylgja Dalvík/Reyni niður í 3. deild.

Dagskrá Hattarmanna er ekkert sérlega þægileg. Þeir fara í heimsókn í Fjallabyggð næstu helgi og fá síðan botnlið Dalvíkur/Reynis í heimsókn næsta miðvikudag. Sá leikur verður hreinlega að vinnast, því eftir það á Hattarliðið tvo erfiða útileiki gegn Tindastól og Aftureldingu, áður en liðið fær nágranna sína í Leikni í heimsókn í lokaumferðinni – í leik sem gæti orðið úrslitaleikur fyrir bæði lið, á sitthvorum enda deildarinnar.

Síðustu 5 leikir Hattar
KF (Ú)
Dalvík/Reynir (H)
Tindastóll (Ú)
Afturelding (Ú)
Leiknir (H)

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.