Orkumálinn 2024

Knattspyrna: Huginsmenn unnu baráttuna á Vilhjálmsvelli og fara á toppinn (í bili)

QM1T5565Huginn vann sigur í grannaslag gegn Hetti á Vilhjálmsvelli í gærkvöldi. Höttur byrjaði leikinn vel en Huginsmenn komu sér inn í leikinn af krafti og skoruðu tvö mörk áður en flautað var til hálfleiks. Hattarmenn urðu svo manni færri snemma í seinni hálfleik og þegar upp var staðið gátu Hattarmenn einungis þakkað markverði sínum fyrir að tapa leiknum ekki með fleiri mörkum.

Hattarliðið byrjaði hressilega og átti fyrsta góða færi leiksins, þegar Högni Helgason setti boltann rétt framhjá stönginni eftir fyrirgjöf frá vinstri. Þá komst nýji maðurinn, Ágúst Örn Arnarson, í gott skallafæri en náði ekki að stýra knettinum í netið.

Góð byrjun Hattar fjaraði fljótlega út og Huginsliðið byrjaði að stjórna leiknum. Hattarmenn spiluðu frekar fast og eftir rúmar tuttugu mínútur þurfti Miguel Gudiel Garcia sóknarmaður Hugins að fara af velli eftir viðskipti sín við Runólf Svein Sigmundsson. Hattarmenn urðu fljótlega mjög pirraðir og vildu meina að Huginsmenn ýktu viðbrögð sín við brotum – og þá kannski helst spænsku leikmennirnir.

Fyrsta mark Hugins kom á 28. mínútu þegar Rúnar Freyr Þórhallsson skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu. Markið virkaði eins og vítamínsprauta fyrir lið Hugins sem tók öll völd á vellinum það sem eftir lifði hálfleiksins, á meðan að Hattarliðið hætti að þora að spila boltanum.

Fljótlega uppskáru Huginsmenn líka annað mark, þegar boltanum var lyft afar snyrtilega yfir vörn Hattar og Alvaro Montejo Calleja skoraði framhjá Sigurði Hrannari Björnssyni.

Huginsmenn voru eiginlega í stanslausri sókn út hálfleikinn og leikmönnum Hattar gekk alveg bölvanlega að láta boltann fljóta á milli sín og byggja upp sóknir. Ekki voru þó skoruð fleiri mörk og Huginsmenn fóru með þægilega 0-2 forystu inn í hálfleikinn, við mikinn fögnuð stuðningsmanna sinna sem fjölmenntu á Vilhjálmsvöll og létu vel í sér heyra.

Snemma í síðari hálfleik fékk Aron Gauti Magnússon svo sitt annað gula spjald, þegar hann tók niður leikmann Hugins í hraðri sókn og þar með urðu Hattarmenn einum færri. Upp úr því fjaraði leikurinn dálítið út. Huginsmenn vörðu forystuna vel og voru skynsamir. Lítil ógn stafaði af liði Hattar, nema þá helst þegar þeir fengu föst leikatriði.

Sigurður Hrannar í marki Hattar átti nokkrar mjög góðar vörslur í síðari hálfleik og sérstaklega á síðustu fimm mínútum leiksins, þegar Hattarliðið var algjörlega búið að játa sig sigrað. Þá varði hann tvisvar eða þrisvar meistaralega þegar Huginsmenn höfðu komið sér í kjörstöðu og bjargaði heimamönnum frá afhroði gegn nágrönnum sínum.

Huginsmenn fögnuðu sigrinum vel þegar flautað var til leiksloka, enda hafa þeir skotið sér tímabundið á topp deildarinnar. Stemningin í kringum Huginsliðið er algjörlega frábær og ef þeir halda áfram að sýna þessi gæði og þennan stöðugleika verða þeir með í baráttunni um sæti í fyrstu deild allt til enda.

Hattarliðið byrjaði þennan leik vel en eftir fyrra mark Hugins hætti liðið að spila boltanum eins og þeir gerðu í upphafi leiks og byrjuðu þess í stað að negla boltanum ítrekað langt og hátt fram völlinn. Huginsmenn eru með sterka og hávaxna stráka í öftustu víglínu og réðu auðveldlega við það.
QM1T5772QM1T5822QM1T5875QM1T5881QM1T5884QM1T5935QM1T5950QM1T5958QM1T5969QM1T6022QM1T6060QM1T6066QM1T6136


 

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.