Knattspyrna: Bitlaust Hattarlið tapaði sínum öðrum heimaleik í röð

fotbolti huginn hottur mai15 0034 webStuðningsmenn Hattar hafa fengið ákaflega lítið fyrir peninginn síðustu daga. Síðasta laugardag steinlá liðið gegn KF á Fellavelli 0-2 og í gær urðu áhorfendur vitni að 1-3 tapi gegn Tindastól, sem er í næst neðsta sæti deildarinnar.

Hroðalegur fyrri hálfleikur kostaði leikinn
Það var strax á fimmtu mínútu sem að gestirnir skoruðu fyrsta mark leiksins eftir barnalega tilburði Hattar í vörninni. Markið ekki fallegt en telur engu að síður. Sjö mínútum síðar skoraði svo leikmaður Tindastóls með skalla eftir hornspyrnu eftir virkilega slaka dekkningu heimamanna.

Steinar Aron Magnússon var á ferðinni á 20 mínútu og minnkaði muninn fyrir Hött 1-2 og héldu margir að nú væri „comeback“ á dagskránni enda eiga Hattarar að vera mikið mun betri í fótbolta en Stólarnir.

Það hinsvegar skiptir ekki máli þegar menn verjast ekki almennilega og eftir aðeins 27 mínútna leik var staðan 1-3 eftir að framherji Stólanna afgreiddi boltann ágætlega framhjá Sigurði Hrannari Björnssyni markmanni Hattar.

Gunnlaugur Guðjónsson gerði tvær breytingar á liði Hattar í hálfleik sem verða að teljast sóknarsinnaðar þegar að hann tók þá Halldór Fannar Júlíusson og Ísleif Guðmundsson af velli og setti Elvar Þór Ægisson og Friðrik Inga Þráinsson inná. Þær skiptingar ásamt því að Brynjar Árnason kom inná á þeirri sjötugustu löguðu aðeins sóknarleik Hattar ásamt því að liðið fór í 3 manna vörn.

Þó svo að Höttur hafi verið betri í þeim síðari þá kom það ekki fyrir að liðið skoraði og hefðu Hattarmenn svo sem allt eins getað fengið á sig mark þar sem að Tindastóll átti nokkur ágætis upphlaup.

Vantar allt bit
Eftir átta umferðir hefur Hattar liðið skorað sjö mörk, minna en mark að meðaltali í leik. Það hlítur að vera áhyggjuefni og er spurning hvort að Gulli þjálfari og stjórn Hattar séu ekki farnir að skoða símaskrána á Spáni í leit að meira biti fram á við.

Það sem vakið hefur síðan athygli í síðustu tveimur heimaleikjum Hattar, gegn frekar lágt skrifuðum andstæðingum, er sú staðreynd að sex leikmenn i byrjunarliði Hattar hafa á einhverjum tímapunkti spilað miðvörð, sem þýðir einfaldlega að liðið er stórt og sterkt en það er á kostnað þess að liðið sé mjög skapandi. Það hefur að minnsta kosti farið lítið fyrir samba töktum á Fellavelli síðustu daga.

Næsti leikur Hattar er gegn neðsta liði deildarinnar, Dalvík/Reyni og ef menn hysja ekki upp um sig buxurnar og gefa allt í þann leik, já þá er eitthvað mikið að.

Sem betur fer fyrir Hött er einungis þriðjungur af mótinu búinn og enn tími til að bæta spilamennskuna, en ef liðið ætlar að enda í efri helming deildarinnar þá þurfa menn einfaldlega að stíga tvö til þrjú skref upp.

Það eru sjö stig í Hugins liðið og átta í Leikni, sem bæði tvö hafa aftur á móti spilað glimrandi fínt mót hingað til.


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.