Álkarlakeppni á Austurlandi

tour de ormurinn 0218 webÍ sumar verður hægt að skora rækilega á sjálfan sig og taka þátt í nýrri þriggja þrauta keppni á Austurlandi, Álkarlinum, sem er haldin af UÍA í samstarfi við Alcoa Fjarðaál.

Keppt verður í sundi, hlaupi og hjólreiðum í þremur mismunandi keppnum á Austurlandi og þeir sem ljúka öllum þremur þrautunum á sama sumrinu fá að prýða sig sæmdarheitinu Álkarl eða Álkona.

Nafngift keppninnar er annarsvegar skírskotun í aðalstyrktaraðila hennar, Alcoa Fjarðaál og hinsvegar í þríþrautina Járnkarlinn, en í járnkarlsfyrirkomulagi er einmitt keppt í sundi, hjólreiðum og hlaupi.

Þrautirnar sem Álkörlum og Álkonum er gert að þreyta eru Urriðavatnssund, Barðsneshlaup og Tour de Ormurinn.

Í Urriðavatnssundi þurfa Álkarlar að synda 2,5 km, en Urriðavatnssundið fer fram þann 25. júlí. Keppendur í Álkarlinum þurfa einnig að hlaupa 27 km utanvegaleið í Barðsneshlaupi á Norðfirði, þann 1. ágúst. Síðasta þrautin er svo hjólreiðakeppnin Tour de Ormurinn, sem fram fer 15. ágúst. Þar þurfa Álkarlar að hjóla 103 km leið umhverfis Lagarfljót.

Einnig verður boðið upp á Hálfkarl en þar synda þátttakendur 1,25 km í Urriðavatnssundi, hlaupa 13 km í Hellisfjarðarhlaupi (sem er hluti af Barðsneshlaupi) og hjóla 68 km í Tour de Orminum. Þeim er veittur viðurkenningargripur og sæmdarheitið Hálfkarl eða Hálfkona.

Áhugavert verður að fylgjast með því hvort margir hraustir Austfirðingar skori á sjálfa sig í sumar og reyni við allar þrjár þrautirnar.

Mynd: Frá hjólreiðakeppninni Tour de Ormurinn árið 2012

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.