Orkumálinn 2024

Knattspyrna: Fjarðabyggð áfram í bikarnum eftir dramatík og átján víti - Myndir og myndbönd

fotbolti kff leiknir bikar 0003 webFjarðabyggð og Höttur verða í pottinum þegar dregið verður í 32-liða úrslit Borgunarbikars karla í knattspyrnu. Fjarðabyggð sigraði Leikni eftir dramatíska vítaspyrnukeppni í Fjarðabyggðarhöllinni í gærkvöldi og Hattarmenn slógu Sindra út á Höfn.

Leikur Fjarðabyggðar og Leiknis var jafn og skemmtilegur. Fjarðabyggð var meira með boltann og stjórnaði gangi leiksins, en Leiknismenn voru alltaf hættulegir þegar þeir unnu boltann og sóttu hratt fram völlinn. Upplegg Leiknis gekk vel upp og lið Fjarðabyggðar átti í miklum erfiðleikum með að skapa sér opin færi.

Fernando Garcia Castellanos var öflugur í leiknum í gær og gerði leikmönnum Fjarðabyggðar lífið leitt með ítrekuðum rispum sínum upp vinstri vænginn. Hann fékk fyrsta alvöru færi leiksins eftir 14. mínútna leik þegar Leiknismenn sóttu hratt. Skot hans úr fór hinsvegar beint á Kile Kennedy í marki Fjarðabyggðar.

Á 33. mínútu átti sér stað skondið atvik. Björgvin Snær, markvörður Leiknis var þá að koma boltanum í leik þegar Halldór Breiðfjörð dómari leiksins dæmdi á hann 6 sekúndur. Töluverð reikistefna varð í kjölfar þessa atviks og enginn leikmaður virtist átta sig almennilega á dómnum. Leikmenn Fjarðabyggðar höfðu ekki verið að biðja um neitt og Björgvin hafði ekki verið neitt yfirgengilega lengi með boltann í höndunum að mati fréttaritara.

Dómarar eru yfirleitt ekki strangir á sex sekúndna reglunni og almennt hafa þeir ekki kippt sér upp við það að markmenn hafi boltann í höndunum í allt að 10-12 sekúndur. Mögulega er um einhverjar nýjar áherslur í dómgæslunni að ræða. Ekkert kom upp úr óbeinu aukaspyrnunni í kjölfar þessa atviks og var það kannski ágætt, enda hefði það hleypt illu blóði í Leiknismenn, sem voru allt annað en sáttir með dóminn.

Lítið gerðist fram að leikhléi. Sóknir Fjarðabyggðar runnu flestar út í sandinn þegar þeir nálguðust vítateiginn og vörn Leiknis réði vel við það þegar háir boltar voru sendir í átt að teignum. Hinn öflugi framherji Fjarðabyggðar, Brynjar Jónasson, fékk lítið svæði til að athafna sig í.

Leiknismenn áttu fyrsta færið í síðari hálfleik. Þá féll boltinn fyrir fætur Julio Martinez og hann átti þrumuskot sem hafði viðkomu í leikmanni Fjarðabyggðar áður en boltinn fór í slána á marki Fjarðabyggðar og í horn. Leiknismenn vildu meina að boltinn hefði farið í hendi varnarmanns, en dómarinn var ekki á sömu skoðun.

Á 72. mínútu var Fjarðabyggð nálægt því að komast yfir, þegar Brynjar Jónasson átti gott skot úr þröngu færi í innanverða stöngina. Upp úr því fékk Fjarðabyggð svo hornspyrnu sem skapaði líka mikla hættu, en Leiknismenn náðu naumlega að hreinsa.

Engin mörk litu dagsins ljós fyrr en í uppbótartíma. Þá komst Fjarðabyggð yfir þegar Milos Ivankovic skallaði aukaspyrnu í netið af stuttu færi. Þá töldu nú flestir viðstaddir að Fjarðabyggð væri búið að tryggja sig áfram í næstu umferð.

Leiknismenn hættu þó ekki og í lokasókn þeirra fengu þeir vítaspyrnu, er boltinn fór í hönd leikmanns Fjarðabyggðar í teignum. Julio skoraði úr vítaspyrnunni og tryggði Leikni framlengingu, þrátt fyrir Kile hafi farið í rétt átt. Litlu munaði að allt syði upp úr eftir jöfnunarmarkið, en Leiknismenn voru afar ósáttir við Kile, sem þrumaði boltanum í átt að þeim er þeir voru að fagna markinu. Halldór dómari náði þó að róa menn niður á endanum. Myndband af vítinu og æsingnum að því loknu má sjá hér að neðan.

Framlenging og vítaspyrnukeppni

Fátt markvert gerðist í framlengingunni. Björgvin Stefán kom sér í þröngt færi á 94. mínútu en setti boltann í hliðarnetið. Besta færi Fjarðabyggðar kom á 102. mínútu þegar Elvar skallaði boltann í stöngina og þaðan fór boltinn meðfram línunni í fang Björgvins.

Töluvert dróg af báðum liðum í framlengingunni, en sóknarmenn Leiknis náðu þó reglulega að sprengja upp hraðann og þá áttu varnar- og miðjumenn Fjarðabyggðar fáa aðra kosti en að brjóta á þeim og safna gulum spjöldum.

Ekki tókst liðunum að skora í framlengingunni og því var farið í vítaspyrnukeppni. Fyrstu vítin voru gríðarlega örugg og ekkert víti fór forgörðum fyrr en Julio Martinez steig á punktinn. Kile varði víti hans vel og því var staðan 3-4 þegar hvort lið hafði tekið fjórar spyrnur.

Þá hafði Stefán Þór Eysteinsson fyrirliði Fjarðabyggðar tækifæri til þess að tryggja Fjarðabyggð áfram, en Björgvin sá við honum og varði, eins og sjá má hér að neðan.

Leiknismenn jöfnuðu síðan í 4-4 og vítaspyrnukeppnin fór í bráðabana. Bæði lið skoruðu úr fyrstu tveimur spyrnum sínum í bráðabananum og staðan orðin 6-6 eftir sjö spyrnur á hvort lið. Þá fór Kile markvörður Fjarðabyggðar á punktinn og Björgvin gerði sér lítið fyrir og varði!

Spennan var gríðarleg í Fjarðabyggðarhöllinni á þessum tímapunkti enda hafði Leiknir möguleika á að tryggja sig áfram með marki. Eitthvað fát virðist koma á Leiknismenn varðandi það hver ætti að taka vítið, en að lokum klæddi Björgvin markvörður sig úr hönskunum og steig á punktinn.

Því miður fyrir Björgvin náði hann ekki að verða hetja dagsins og Kile varði slakt víti hans. Markmennirnir vörðu semsagt frá hvorum öðrum og þegar Björgvin var búinn að klæða sig aftur í hanskana steig Milos á punktinn og skoraði örugglega, 6-7 fyrir Fjarðabyggð.

Þá steig Björgvin Stefán fyrirliði Leiknis á punktinn. Hann varð að skora, ellegar væru hans menn úr leik. Honum brást hinsvegar bogalistin og Kile varði vítaspyrnuna vel og tryggði sína menn áfram í 32-liða úrslit.

Markverðirnir æfðu vítaspyrnur saman

Austurfrétt hitti á Kile Kennedy, hetju dagsins, að leik loknum. „Mér fannst þetta góður leikur. Það er alltaf erfitt að spila við Leikni, bæði lið vilja ólm sigra. Taktíkin þeirra gekk vel upp, við náðum ekki að brjóta vörn þeirra niður og það var mjög pirrandi. Ég held samt að eigum sigurinn skilið, við reyndum að sækja og skora, en Leiknismenn eiga samt hrós skilið, þeir stóðu sig vel,“ sagði Nýsjálendingurinn geðþekki.

Kile og Björgvin vörðu spyrnur hvors annars í vítaspyrnukeppninni. Kile kennir of miklum æfingum um. „Ég og Björgvin erum búnir að vera að æfa saman í vetur, þar sem það eru svo margir leikmenn beggja liða hafa verið í Reykjavík. Við erum búnir að æfa vítin töluvert saman svo að hann vissi örugglega hvert ég ætlaði að skjóta og öfugt.“

„Gríðarlega stoltur af strákunum“

„Ég held að við höfum gefið þeim ágætisleik,“ sagði Viðar Jónsson þjálfari Leiknis. „Við vörðumst vel og komumst upp með það mest allan leikinn. Svo náttúrlega skora þeir og við jöfnum þarna alveg í lokin. Eftir það er þetta bara 50/50 leikur og svo náttúrlega vító - og það er bara eins og að kasta upp pening. Fyrst og fremst er ég bara gríðarlega stoltur af strákunum. Þeir lögðu allt í þennan leik og fá mark á sig undir lokin og fara og jafna leikinn. Það er geggjað.“

Viðar lagði áherslu á það hversu ánægður hann væri með strákana sína. „Fjarðabyggð er frábært lið og við sýndum það í dag að við erum líka frábært lið sem getur veitt góðum liðum í fyrstu deild verðuga keppni.“

Höttur sló Sindra út eftir vítaspyrnukeppni – Anton Helgi varði þrjár spyrnur

Höttur gerði góða ferð á Höfn í gærkvöldi og komu heim með farseðil í 32-liða úrslit Borgunarbikarsins. Leikurinn var markalaus og því þurfti að grípa til framlengingar. Ekkert var skorað þar heldur og því þurfti að fara í vítaspyrnukeppni, sem Hattarmenn unnu 3-2.  Anton Helgi Loftsson fór hamförum í vítaspyrnukeppninni og varði þrjár spyrnur Hornfirðinga.

Anton hefur verið á bekknum hjá Hetti í upphafi móts, en byrjaði leikinn í gær. Athygli vakti að Hattarmenn gerðu hvorki meira né minna en átta breytingar á byrjunarliði sínu frá því á föstudaginn, er þeir töpuðu gegn Huginn á Fellavelli.

Fjarðabyggð og Höttur verða einu fulltrúar Austurlands í 32-liða úrslitum og möguleiki er á því að næstu mótherjar þeirra verði lið úr Pepsi-deildinni. Dregið verður í 32-liða úrslitin á næstu dögum.

fotbolti kff leiknir bikar 0006 webfotbolti kff leiknir bikar 0007 webfotbolti kff leiknir bikar 0017 webfotbolti kff leiknir bikar 0020 webfotbolti kff leiknir bikar 0022 webfotbolti kff leiknir bikar 0024 webfotbolti kff leiknir bikar 0026 webfotbolti kff leiknir bikar 0033 webfotbolti kff leiknir bikar 0041 webfotbolti kff leiknir bikar 0049 webfotbolti kff leiknir bikar 0071 webfotbolti kff leiknir bikar 0075 webfotbolti kff leiknir bikar 0077 webfotbolti kff leiknir bikar 0080 webfotbolti kff leiknir bikar 0085 webfotbolti kff leiknir bikar 0086 webfotbolti kff leiknir bikar 0088 webfotbolti kff leiknir bikar 0098 webfotbolti kff leiknir bikar 0099 webfotbolti kff leiknir bikar 0200 web

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.