Körfubolti: Menn héldu að það væri kominn aðfangadagur - Myndir

karfa hottur kfi 0001 webHöttur heldur efsta sætinu í fyrst deild karla í körfuknattleik eftir 80-62 sigur á KFÍ á Egilsstöðum í kvöld. Þjálfari liðsins lýsti frammistöðu liðsins dapurlegri en liðið kastaði yfirburða stöðu frá sér í leiknum.

Eftir að staðan var 4-4 tóku Hattarmenn sig til og skoruðu átján stig í röð. Ísfirðingar virtust áhugalausir, sérstaklega í varnarleiknum og heimamenn gátu gengið að körfunni að vild. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 26-5.

Slíkan mun má telja óeðlilegan eftir einn leikhluta milli liða í sömu deild en að sama skapi er hæpið að hann hverfi á stuttum tíma.

Hattarmenn virtust líta svo á að sigurinn væri í höfn og öll ákefð hvarf úr sóknarleik þeirra enda skoruðu þeir ekki stig fyrstu fjórar mínútur annars leikhluta. Á sama tíma minnkuðu gestirnir muninn.

Forustan var enn þægileg í hálfleik, 35-25 en þróunin hélt áfram og seinni helming þriðja leikhluta munaði aðeins 1-2 stigum á liðunum. Hattarmenn voru samt alltaf yfir, bitu frá sér síðustu þrjár mínúturnar og voru 53-45 yfir eftir leikhlutann.

Hattarmenn tóku völdin aftur í fjórða leikhluta. Tvennt virtist koma til. Annars vegar keyrðu þeir aftur upp hraðann í sóknarleiknum og stærri og þyngri KFÍ-menn þreyttust og réðu um leið ekki við aukinn hraða.

Bandaríkjamaðurinn Tobin Carberry fór fyrir Hattarliðinu en það var Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari sem gerði út um leikinn með tveimur þriggja stiga körfum í röð þegar um tvær mínútur voru eftir.

Eftir það var allur vindur úr Ísfirðingum líkt og leikklukkunni. Vandræði voru með hana í leikhlutanum en hún datt endanlega út eftir seinni körfuna hjá Viðar. Skotklukkan var mæld með skeiðklukkum síðustu tvær mínúturnar og leikmenn látnir vita af framganginum í gegnum hátalarakerfi hússins.

„Þetta var virkilega döpur frammistaða að mínu mati. Menn byrjuðu af krafti en héldu svo að það væri kominn aðfangadagur og gætu slakað á," sagði Viðar Örn eftir leikinn.

„Þetta er ákveðinn höfuðverkur því þetta er annar leikurinn í röð þar sem við spilum vel á köflum en klárum ekki leikinn á fullum krafti."

Tobin Carberry skoraði 33 stig fyrir Hött og tók 12 fráköst. Ragnar Gerald Albertsson skoraði 15 og Hreinn Gunnar Birgisson 13.

Nebojsa Knezevic var stigahæstur hjá KFÍ með 13 stig. Birgir Björn Pétursson skoraði 13 stig og hirti 14 fráköst. Stigaskor KFÍ dreifðist á alla leikmennina tíu á skýrslu. Innkoma þjálfarans Birgis Arnar Birgissonar vakti sérstaka lukku á varamannabekk Ísfirðinga og sérstaklega að hann skyldi skora fimm stig.

karfa hottur kfi 0004 webkarfa hottur kfi 0010 webkarfa hottur kfi 0018 webkarfa hottur kfi 0019 webkarfa hottur kfi 0026 webkarfa hottur kfi 0037 webkarfa hottur kfi 0053 webkarfa hottur kfi 0057 webkarfa hottur kfi 0059 webkarfa hottur kfi 0061 web

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.