Mögur helgi hjá austfirskum íþróttaliðum

Throtturnes stjarnan okt14 jgBlaklið Þróttar og körfuknattleikslið Hattar vilja eflaust gleyma nýliðinni helgi sem fyrst því liðin töpuðu öll sínum leikjum.

Lið Hattar í fyrstu deild karla í körfuknattleik tapaði á móti Val á föstudagskvöld en leikið var að Hlíðarenda. Hattarliðið var á eftir allt frá byrjun og tuttugu stigum undir á tímabili í seinni hálfleik en lokatölur voru 78-64.

Tobin Carberry var stigahæstur Hattarmanna með 27 stig og Hreinn Gunnar Birgisson skoraði ellefu.

Frí er í deildakeppninni um næstu helgi en úrvalsdeildarlið Snæfells kemur í heimsókn á laugardag í bikarkeppninni.

Í Neskaupstað spiluðu blakliðin fyrstu heimaleiki sína á tímabilinu. Miklar breytingar hafa orðið á kvennaliðinu í vetur og sem dæmi má nefna að átta stelpur spiluðu um helgina sinn fyrsta heimaleik fyrir félagið.

Mótherjar helgarinnar voru Stjörnustúlkur úr Garðabæ og unnu þær fyrri leikinn í þremur hrinum, 19-25, 14-25 og 18-25. María Karlsdóttir var stigahæst með níu stig og Lilja Einarsdóttir skoraði þrjú.

Garðabæjarliðið vann seinni leikinn á laugardag líka í þremur hrinum en þær voru jafnari, 21-25, 21-25 og 20-25. María Rún og Lilja voru aftur stigahæstar með 14 og 8 stig.

Karlalið Þróttar spilaði svo gegn HK og tapaði þeim leik í þremur hrinum, 17-25, 15-25 og 17-25. Valgeir Valgeirsson skoraði 8 stig fyrir Þrótt og Lárus Thorarensen sjö.

Liðin fara nú í fjögurra vikna frí fram að forkeppni bikarkeppni Blaksambandsins sem leikin verður í Neskaupstað.

Mynd: Jón Guðmundsson

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.