Fjarðabyggð deildarmeistari: Vinnusemin ástæða þess að liðið er komið þetta langt

kff meistarar2014 etkBrynjar Gestsson, þjálfari Fjarðabyggðar sem tók á laugardag á mót deildarmeistaratitlinum í annarri deild karla, segist hafa gert sér grein fyrir því á undirbúningstímabilinu að liði væri komið lengra en hann bjóst við. Stefnan var í kjölfarið sett upp og það tókst.

„Það var ekki fyrr en við spiluðum við ÍR í deildabikarnum að ég sá að drengirnir voru komnir miklu lengra í uppbyggingunni okkar og menn voru greinilega miklu fljótari að tileinka sér þann fótbolta og þá nálgun sem ég hafði byrjað á árinu áður. Í þessum leik við ÍR sá ég við gætum farið alla leið."

Þar vísar Brynjar til 0-2 sigur Fjarðabyggðar á ÍR í undanúrslitum Lengjubikarsins en liðin spiluðu í Breiðholtinu. ÍR-ingar eru nú í öðru sæti annarrar deildar og fara ekki upp í ár.

Einn tapleikur

Liðin mættust þar aftur í fyrstu umferð Íslandsmótsins í leik sem endaði með markalausu jafntefli. Eftir 21 leik hefur Fjarðabyggð unnið 15, gert fimm jafntefli og tapað einum, gegn Aftureldingu í fjórðu umferð.

„Vinnusemin og formið á leikmönnum KFF er ástæða þess að við erum þar sem við erum í dag. Við erum að pressa liðin í 90 mínútur og það er gríðarlega mikið af sóknum sem við erum að búa til með mjög skipulagðri hápressu.

Það er svo helvíti gott að vinna boltann 20- 40 metra frá marki andstæðingana. Við leggjum upp með það.

Menn eru líka óhræddir við að spila boltanum, einfaldlega vegna þess að menn eru ekki hræddir við að gera mistök, það er í lagi að vera ekki fullkominn og gallalaus leikmaður hjá okkur."

Óhræddur við fyrstu deildina

Í lokahófi Fjarðabyggðar á laugardagskvöld var fyrirliðinn Stefán Þór Eysteinsson útnefndur besti leikmaðurinn, Emil Stefánsson valinn efnilegastur og Brynjar Jónasson verðlaunaður fyrir mestar framfarir auk þess sem hann varð markahæstur.

Framundan er nú barátta hjá Fjarðabyggð í fyrstu deildinni. Þar spilaði liðið frá 2006-2010 og var á köflum nálægt því að fara upp í úrvalsdeild. Liðið hefur nú unnið tvær deildir á tveimur árum, risið næstum jafn hratt og það féll.

„Það er miklu meiri munur á 3. og 2. deild, og 2. og 1. deild. Við þurfum að vinna gríðarlega vel í okkar málum í vetur og menn þurfa að vera virkilega agaðir og æfa meira en þeir hafa gert áður.

Ef við höldum áfram að bæta leik okkar jafnmikið og við höfum gert síðustu tvö tímabil, í bland við að ná að styrkja okkur á vissum stöðum að þá getur þetta unga lið orðið stöðugt 1.deildarlið. Ég er ekki í neinum vafa um það."

„Menn standa saman hér fyrir austan“

Hann segist ekki sjá fyrir sér stórar breytingar á leikmannahópnum en óljóst er hvort hann fylgir liðinu upp. Kona hans hefur barist við krabbamein og ekki er enn ljóst hvernig meðferðin hefur gengið.

En hann kveðst þakklátur fyrir þann stuðning sem hann hefur fengið. Um mitt sumar gáfu leikmenn Leiknis Fáskrúðsfirði hjónunum það sem komið var í sektarsjóðinn og á lokahófinu styrktu leikmenn og stjórn Fjarðabyggðar þau 150.000 krónur.

„Þetta er ómetanlegt. Menn standa saman hér fyrir austan, það er ljóst."

Mynd: Eysteinn Þór Kristinsson

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.