Orkumálinn 2024

Knattspyrna: Fjarðabyggð upp í fyrstu deild

fotbolti kff njardvik 18082014 0076 webKarlalið Fjarðabyggðar tryggði sér um helgina sæti í fyrstu deild næsta sumar með 2-3 sigri á Gróttu en liðin tvö hafa barist um toppsætið í sumar. Huginn á enn tölfræðilega möguleika á að fylgja með. Höttur og Leiknir eru enn í lykilstöðu í þriðju deild karla en austfirsku liðin fara ekki í umspil í fyrstu deild kvenna.

Það var Sveinn Fannar Sæmundsson sem skoraði sigurmark Fjarðabyggðar á 55. mínútu. Gróttumenn komust yfir strax á fimmtu mínútu en tvö mörk Jóhanns Ragnars Benediktssonar komu Fjarðabyggð í kjörstöðu. Heimamenn jöfnuðu hins vegar með sjálfsmarki austanmanna á síðustu mínútu fyrri hálfleiks.

Þegar fjórar umferðir eru eftir er Fjarðabyggð með fimm stiga forskot á Gróttu og 13 stiga forskot á ÍR og Huginn í þriðja og fjórða sæti en tvö efstu liðin fara upp um deild.

Huginn á enn séns á því en liðið burstaði Ægi 4-1 á Seyðisfirði á laugardag þar sem Marko Nikolic skoraði þrennu. Til að þeir draumar rætist þarf liðið hins vegar að vinna sína fjóra síðustu leiki og Grótta að tapa þremur af fjórum.

Höttur er stigi á eftir Leikni á toppi þriðju deildar karla eftir 0-2 sigur á KFR um helgina. Leikni gekk hins vegar verr, tapaði fyrir Víði í Garði 2-1 og gerði 1-1 jafntefli við Grundarfjörð.

Liðin eiga þrjá leiki eftir en eina liðið sem á raunhæfa möguleika á að ná þeim eru Berserkir sem spila tvo leiki eystra um næstu helgi.

Höttur missti endanlega af tækifæri á umspili um sæti í úrvalsdeild kvenna þegar liðið tapaði 2-0 fyrir ÍR og 4-0 fyrir KR í Reykjavíkurferð sinni um helgina. Þá lauk Fjarðabyggð keppni í B riðli fyrstu deildar kvenna á fimmtudagskvöld þegar liðið tapaði 1-4 fyrir Völsungi á heimavelli.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.