„Vona að Bryggjuhátíðin festist í sessi sem okkar bæjarhátíð“

Íbúasamtökin á Reyðarfirði endurvöktu Bryggjuhátíðin í fyrra eftir langan dvala sem verður nú haldin í annað skiptið um helgina í núverandi formi.



„Undirbúiningurinn hefur gengið mjög vel, dagskráin er ljómandi fín og svo verður hverfagrillið á sínum stað,“ segir Sigríður Hrönn Gunnarsdóttir, ein af skipuleggjendum, en í ár heita hverfin eftir bryggjum sem hafa verið á staðnum gegnum tíðina.

„Ég fékk þá hugmynd í fyrra, að tilvalið væri að nefna hverfin eftir bryggjunum, bæði þeim sem eru og hafa verið á staðnum. Ég mundi nú ekki nöfnin á þeim öllum og þurfti að leita ráða hjá hafnarstarfsmönnum, en dæmi um heiti eru Mjóeyrarhöfn, Gamla kaupfélagsbryggjan, GSR bryggjan og Bergsbryggja.“


Meistarar dauðans heilla

Hátíðin verður á laugardag og fer að mestu fram á hafnarsvæðinu, á túninu fyrir neðan N1. Handverksmarkaður, andlitsmálun og „skott-markaður“ þar sem öllum gefst færi á því að selja eigur sínar beint úr skottinu á bílnum verður meðal þess sem um er að vera yfir daginn.

Tónlistin verður einnig stór þáttur, en fram koma meðal annars Fjarðadætur, Jón Hilmar og Hrafna og Djassbandið.

„Af öllu öðrum ólöstuðum er það líklega unglingabandið Meistarar dauðans sem við erum spenntust að sjá, þó svo að allt séu þetta frábærir listamenn – en ég veit að yngri kynslóðin verður mjög hrifin af þeim.“

Sigríður segist vongóð að veðrið haldist til friðs. „Ég vona að það haldist allavega þurrt, en við erum mjög spennt fyrir helginni og vonum að Bryggjuhátíðin nái að festa sig í sessi sem okkar bæjarhátíð.“

Hér má nánar fylgjast með hátíðinni.

Ljósmynd: Frá Bryggjuhátíðinni í fyrra - Arnar Goði og María Dögg Valsbörn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.