Orkumálinn 2024

„Við vinnum mikið í framtíðinni“

„Jólatónleikar er stór hluti af hefðinni og jólaandanum, fólk hefur alltaf gaman af því að hlusta á jólatónlist og vill yfirleitt fá að heyra það sama – það er svolítið þannig að jólin koma með Helgu Möller sem syngur stóran hluta íslenskra jólalaga,“ segir Guðjón Birgir Jóhannsson, framkvæmdastjóri Hljóðkerfaleigu Austurlands sem stendur fyrir tónleikunum Jólafriður í íþróttahúsinu í Neskaupstað á sunnudaginn.



Segja má að tónleikagestir megi búast við veislu fyrir augu og eyru á sunnudaginn, en á tónleikunum syngja þau Jóhanna Guðrún Jónsdóttir, Valdimar Guðmundsson, Sigríður Thorlacius, Óskar Pétursson, og Erna Hrönn Ólafsdóttir, ásamt norfirsku söngkonunum Maríu Bóel Guðmundsdóttur og Kötlu Heimisdóttur ásamt hljómsveit undir stjórn gítarleikarans Jóns Hilmars Kárasonar.

„Við verðum með heilmikla sviðsmynd, flott ljós og hljóð eins og við erum þekktir fyrir,“ sagði Guðjón Birgir í samtali við Austurfrétt.

Er þetta fimmtánda árið í röð sem að tónleikarnir Jólafriður fara fram, en í þriðja skipti sem þeir eru haldnir í íþróttahúsinu í Neskaupstað.

„Daníel Arason á þessa tónleika, hann byrjaði með þá árið 2001 og hélt þá í Tónleikamiðstöðunni á Eskifirði þar til hann flutti suður og við tókum við þeim og fluttum þá yfir í Neskaupstað. Áherslan var alltaf á að halda tónleika þar sem tónlistarfólk úr héraði væri í forgrunni sem er alveg frábært því við eigum mikið af hæfileikaríku fólki. Við höfum hins vegar síðustu þrjú ár fengið til liðs við okkur þekkta söngvara sem hefur einnig gefist mjög vel, en það hafa verið um 400 manns á tónleikunum síðan við fórum í íþróttahúsið.“


Væri ógerlegt án stuðnings Síldarvinnslunnar

Guðjón Birgir segir að ekki væri gerlegt fyrir Hjóðkerfaleiguna að halda tónleika af þessari stærðargráðu nema fyrir stuðning Síldarvinnslunnar sem er þeirra stærsti styrktaraðili.

„Stuðningur þeirra gerir það að verkum að við getum haldið miðaverði í algeru lágmarki, eða 3900 krónur, sem annars myndi kosta um 8000 krónur og þá væri aðsóknin eðlilega ekki sambærileg. Þeirra stuðningur er algerlega ómetanlegur og þetta væri hreinlega ekki hægt án þeirra.“

Guðjón Birgir segir slíkum viðburði óhjákvæmilega fylgja álag og stress en með því að hefja undirbúning snemma hafist þetta allt að lokum.

„Öll okkar störf eru skipulögð langt fram í tímann, við vinnum mikið í framtíðinni – en þegar venjulegt fólk er að undirbúa páska þá erum við að undirbúa sjómannadag og þegar aðrir huga að sjómannadegi þá erum við að plana verslunarmannahelgi, en þegar að henni svo kemur erum við farin að hugsa um jólin. Þetta er hrikalega skemmtileg vinna og að svona tónleikum koma líklega um fjörutíu manns. Í venjulegu árferði værum við að stressa okkur á veðurspánni, en ekki í ár.“

Tónleikarnir eru á sunnudaginn og hefjast klukkan 16:00. Miðasala fer fram í versluninni Kristall í Neskaupstað og á Tix.is.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.