„Við stjórnum ekki náttúrunni“

„Eitthvað sem maður er búinn að umgangast alla ævi er manni óneitanlega mikils virði,“ segir Helgi Þorsteinsson, en hann rekur fyrirtækið Eiderdowncomforters á Vopnafirði.


Þau Helgi og Alda Sigurðardóttir á Ytri-Nýpi í Vopnafirði fullvinna þau æðardún varplandsins og framleiða hágæðasængur og- kodda fyrir erlendan markað.
Helgi er þriðji ættliðurinn sem stundar búskap á Ytri-Nýpi en eftir rúmlega 40 ára blandaðan búskap ákvað hann að snúa sér alfarið að æðardúninum.
Helgi segir æðarvarpið hafa verið vaxandi stoð í búskapnum gegnum árin og snemma hafi markvisst verið unnið að því að hlúa að því. Varpið hefur verið byggt upp með litlum varphúsum, ýmist úr timbri eða dekkjum.

„Þegar pabbi var unglingur voru þarna tíu til fimmtán hreiður en í dag eru þau yfir þúsund. Þetta er villtur fugl og það á hann enginn en það eina sem hægt er að gera er að skapa aðstæður sem fuglinn vill, gera skjól, halda frá vargi og hlúa að honum.“

Bjóða upp á skoðunarferðir
Ferlið frá því dúnninn er tekinn úr hreiðri og þar til hann er fullunninn er langt og tímafrekt, en hann er þurrkaður í ofni, fer þaðan gegnum hreinsivél, þá í fjaðratínsluvél og er loks handhreinsaður, þveginn og sótthreinsaður. Helgi segir að hver og einn geti hannað sína eigin sæng, þ.e.a.s. hvað hún á að vera stór og hve mikill dúnn á að vera í henni. Verð á sæng getur því verið á bilinu 200 til 800 hundruð þúsund krónur.

Helgi og Alda bjóða upp á skoðunarferðir um varpið og vinnsluna. „Við höfum smám saman verið að bæta aðstöðuna og enduðum í að fullvinna dúninn. Þetta er í sjálfu sér engin verksmiðja, aðeins hugsað fyrir okkar dún. Í kjölfarið kviknaði sú hugmynd að sýna fólki þetta, fara með fólk í varpið sjálft undir leiðsögn og sýna svo allan ferilinn. Fólki finnst þetta mjög áhugavert og það er hissa, ég held það hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað þetta er mikill ferill. Þetta er algerlega nýtt fyrir útlendinga að villtur fugl sé nýttur svona.“

Við stjórnum ekki náttúrunni
Aðspurður um framtíðarsýn fyrirtækisins segir Helgi stefnuna tekna á stækkun. „Við erum hins vegar ekki að stefna á einhvern svakalegan iðnað, erum meira að hugsa um að ná góðum tökum á okkar dúni, þá má hugsa næstu skref.“ Helgi segir að verkefnið skipti hann miklu máli. „Mér þætti mjög sárt að sjá þetta fara illa fyrir einhverja handvömm. En við stjórnum ekki náttúrunni og þar verða alltaf sveiflur, það verðum við bara að sætta okkur við.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar