„Við getum alltaf staðið við 755 Stöðvarfjörður“

„Bolirnir eru hugsaðir til þess að vekja athygli á áframhaldandi uppgreftri landnámsskálans í Stöð,“ segir Stöðfirðingurinn Ívar Ingimarsson, en sérstakir bolir verða til sölu í tengslum við verkefnið næstu tvær vikurnar.


Rannsókn á skála frá víkingaöld á Stöð í Stöðvarfirði hefur staðið yfir síðastliðin tvö sumur og er talin afar áhugaverð að mati sérfræðinga.

„Áframhaldandi rannsóknir stjórnast algerlega af fjármagni, því hve dugleg fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar eru að styðja við verkefnið, því fjármunir sem veittir eru í slíkar rannsóknir á Íslandi eru í raun mög litlir. Þetta var því ein leið hjá stjórn áhugamannafélagsins um uppgröftinn í Stöð, að láta gera boli til þess að gefa Stöðfirðingum, búsettum jafnt sem brottfluttum, tækifæri á að styðja við verkefnið og fá bol í staðinn,“ segir Ívar.

Kosið var um áletrun
Bolurinn sem er til sölu er með áletruninni „874 Reykjavík – Afsakið, það var víst 755 Stöðvarfjörður“, en Ívar segir að meðlimir á síðunni Landnámsskáli í Stöð hafi kosið úr nokkrum áletrunum og hafi þessi staðið uppúr.

„Fjöldi fólks kaus og þetta var slagorðið sem menn vildu sjá. Almennt er talað um að landnám hafi hafist árið 874 í Reykjavík, en með þessu erum við að ýja að því að það sé nú kannski ekki rétt, heldur hafi það verið 755 Stöðvarfjörður, en þá er ekki verið að vísa til ártals, heldur póstnúmer staðarins. Það á svo eftir að koma í ljós hvaða ártal kemur út úr rannsóknum, en margt í þeim sem komnar eru bendir til þess að landnám hafi hafist töluvert fyrir 874 og þá líklega á Stöðvarfirði. Án þess að setja beint ártal á það getum við alltaf staðið við 755 Stöðvarfjörður.“

Ferðamenn eru áhugasamir um landnámið
Ívar segir að áætlað sé að rannsóknir í Stöð haldi áfram næsta sumar, en nægilegt fjármagn hefur fengist til þess að halda þeim úti í svipaðan tíma og í fyrra, eða um mánaðartímabil.

„Það þarf þó miklu meira fjármagn, en eins og Dr. Bjarni F. Einarsson, sem stýrir uppgreftrinum segir, þá mun rannsóknin taka mjög langan tíma með þessu áframhaldi. Þetta yrði fyrsti landnámsskálinn á Austurlandi, þannig að þetta snýst ekki bara um Stöðvarfjörð, heldur bara alla sögu og menningu fjórðungsins. Ferðamenn í ríkari mæli farnir að ferðast til landsins til þess að kynna sér landnámssöguna þannig að þarna liggja hellings tækifæri.“

Stoltir Stöðfirðingar um allt
Hvernig á að nálgast landnámsbol. „Bolirnir eru til sölu á síðunni Landnámsskáli í Stöð, en það eru stoltir Stöðfirðingar um allt og þetta er kjörið tækifæri til þess að styrkja verkefnið í gamla bænum, já og bara fyrir alla aðra áhugasama.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.