„Við frumflytjum glænýjan pönksálm“

„Pönk á alltaf við og má setja það í allskonar samhengi, bæði með piparkökum og fjölskyldusamveru. Það fjallar meira um pólitík en klám og þess vegna er alveg óhætt að taka börnin með,“ segir Þórunn Gréta Sigurðardóttir, hljómborðsleikari Austurvígstöðvanna.



Austurvígstöðvarnar frá Eskifirði og Reyðarfirði og DDT frá Neskaupstað leika pönk fyrir gesti og gangandi og bjóða upp á piparkökur í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á morgun klukkan 14:00.

Þórunn segir Austurvígstöðvarnar alls ekki stunda áróður. „Það má segja að þetta sé frekar svona hálfgert „bloggpönk“ – þar sem við komum frá okkur málefnum líðandi stundar. Einu sinni voru allir að blogga sem er mikið til dottið uppfyrir, þannig að þetta er fín leið. Já, kannski má segja að við séum að spila“samtíma-núvitundarpönk“. Það má kannski líka kalla það ljóðapönk, bragfræðipönk eða hreinlega gáfumannapönk, en við erum með mjög nákvæman textahöfund.“

Aðspurð að því hvort eitthvað jólalag verði á dagskránni segir Þórunn Gréta; „Við frumflytjum glænýjan pönksálm á dagskránni. Við bjóðum semsagt upp á pönk, piparkökur, kaffi og létta stemmningu og vonumst til þess að sjá sem flesta.“

Aðgangur er ókeypis. Hér má fylgjast með viðburðinum.


Kósýstund í Bókakaffi

Það verður kósýstund á Bókakaffinu Hlöðum í kvöld föstudag. Jólaglögg, kakó, stroh, sungin verða jólalög og fólk nýtur þess að vera til. Gleðin hefst klukkan 20:00. Nánar má fylgjast með viðburðinum hér.



Davíð Þór og Mórún í Bókakaffi

Davíð Þór Jónsson les upp úr og áritar nýju bókina sína um Mórúnu, en fyrsta bókin um hana kom út í fyrra. Nánar má fylgjast með viðburðinum hér.


RÓ teboð í Húsi handanna

Þér er boðið að kíkja við í Húsi handanna á laugardaginn milli klukkan 14:00 og 16:00 og tylla þér á Ró ullardýnuna, legubekkinn og púðana. Við bjóðum upp á tesopa og létt hjal um dásemdir þess að sitja og sofa umvafin/nn mjúkri ull. Nánar má fylgjast með viðburðinum hér. 



Mugison í Valaskjálf

Tónlistarmaðurinn Mugison verður ásamt hljómsveit í Valaskjálf á laugardagskvöldið en tónleikagestir fá nýja diskinn hans í kaupbæti. Nánar má fylgjast með viðburðinum hér.



Aðventa lesin á Skriðuklaustri

Síðastliðin áratug hefur Gunnarsstofnun í samvinnu við aðra staðið fyrir upplestri á Aðventu í desember, bæði hérlendis og erlendis. Aðventa verður að þessu sinni lesin á þremur stöðum á sunnudaginn, þar á meðal á Skriðuklaustri hljómar önnur góðkunnug útvarpsrödd en þar les Gunnar Stefánsson söguna. Upplesturinn hefst klukkan 14:00. Nánar má fylgjast með viðburðinum hér. 



Þjónustusamfélagið á Héraði blæs til jólagleði

Þjónustusamfélagið á Héraði býður alla velkomna í Tjarnargarðinn á sunnudaginn klukkan 15:00.

Myndsmiðjan verður í andyrinu á Minjasafninu að taka myndir og hver veit nema jólasveininn mæti með í myndatökuna. Myndsmiðjan ætlar að gefa myndirnar. Minjasafnið er með opið hús þennan dag og býður ykkur á sýninguna Festum þráðinn. Á bókasafninu verða lesnar jólasögur.

Tónlist, ketilkaffi, heitt kakó og eitthvað að maula. Nánar má lesa um viðburðinn hér.

 


Upplestur úr nýjum bókum á Djúpavogi

Félag eldri borgara á Djúpavogi verður með upplestur úr nýjum bókum í Tryggvabúð, á sunnudagskvöldið klukkan 20:30. Allir velkomnir – heitt á könnunni og bragðgóðir molar í skál.



Risa jólatónleikar í Neskaupstað

Hljóðkerfaleiga Austurlands verður með stórtónleika í íþróttahúsinu í Neskaupstað á sunnudaginn klukkan 16:00.

Segja má að tónleikagestir megi búast við veislu fyrir augu og eyru á sunnudaginn, en á tónleikunum syngja þau Jóhanna Guðrún Jónsdóttir, Valdimar Guðmundsson, Sigríður Thorlacius, Óskar Pétursson, og Erna Hrönn Ólafsdóttir, ásamt norfirsku söngkonunum Maríu Bóel Guðmundsdóttur og Kötlu Heimisdóttur ásamt hljómsveit undir stjórn gítarleikarans Jóns Hilmars Kárasonar.

Frétt um tónleikana má lesa hér.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.