„Tvær stjörnur frá Berufirði á sviðinu sama kvöldið“

„Ég er á ferðalagi um landið með fjölskyldunni og ætlaði ekkert að vera að spila en þegar fyrirspurnin frá þeim kom gat ég bara ekki annað en hoppað á vagninn og held að það verði nú bara frekar mikið kósý þarna í Havarí,“ segir tónlistarkonan Lay Low, en hún heldur tónleika á Karlsstöðum í Berufirði á föstudagskvöldið.

Lay Low er ættuð frá Hvannabrekku í Berufirði. „Ég var mikið á þessum slóðum hér áður fyrr. Núna er svolítið langt síðan ég verið á ferðinni fyrir austan þannig að það er svo sannarlega tími til kominn. Ég hef fylgst með öllu sem Svavar og Berglind hafa verið að bralla síðan þau fluttu austur og ég hlakka mikið til að koma og spila í Havarí.“

Lay Low segist á tónleikunum fara yfir ferilinn sinn og spila sitt hvað af því efni sem hún hefur gefið út síðustu tíu árin. Það verður hins vegar Katrín Birta Björgvinsdóttir frá Núpi í Berufirði sem opnar kvöldið.

Áhorfendur eiga magnaða kvöldstund í vændum
„Þessi helgi verður einstaklega glæsileg í Havarí, stórtónleikar bæði á föstudagskvöld og laugardagskvöld. Það er gríðarlegur hvalreki fyrir okkur að fá Lay Low í heimsókn, en hún hefur heillað þjóðina með sínum einstaka sjarma og þroskuðu lagasmíðum frá því hún spratt fyrst fram á sjónarsviðið árið 2006.

Katrín Birta spilar á undan Lay Low, en hún er ung og rísandi stjarna frá Berufjarðarströnd, alveg frábær listamaður. Það verða því tvær stjörnur frá Berufirði á sviðinu sama kvöldið, þannig að það er alveg öruggt mál að áhorfendur eiga magnaða kvöldstund í vændum,“ segir Svavar Pétur Eysteinsson.

Aðalstuðið verður í Berufirði
Á laugardagskvöldið mun gleðisveitin EM Belfast trylla líðinn. „FM Belfast hélt ógleymanlega tónleika í Havarí síðasta sumar og vegna mikillar eftirspurnar hefur verið ákveðið að endurtaka leikinn. Sveitin gengur lengra í sviðsetningu og almennri sturlun en önnur bönd, þau setja allt á hvolf og það er algjörlega ómögulegt að standa kyrr. Þau hafa sprengt þök af tónleikahöllum í öllum heimsálfum og munu verða fyrst til að fara til tunglsins. Við hvetjum alla til þess að klæða sig í dansskóna, finna til svitaböndin og undirbúa sig fyrir alvöru sveitaball!

Á sunnudaginn ætlum við svo að taka því rólega, fá okkur vöfflur og hlusta á fuglana syngja. Það er því morgunljóst að aðalstuðið verður í Berufirði þessa helgi og því mál til komið að viðra tjaldið og bruna af stað.“

Hér má nánar fylgjast með helginni í Havarí. Forsala á hvorn viðburð fyrir sig er á tix.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.