Orkumálinn 2024

Þjóðleikhússtjóri vill efla tengslin við landsbyggðina

„Það er mikilvægt fyrir Þjóðleikhúsið að sýna í verki að það sé leikhús allra landsmanna,“ sagði Ari Matthíasson, þjóðleikhússtjóri í samtali við Austurfrétt, en vegna mikillar aðsóknar hefur verið bætt við aukasýningu á einleikinn Maður sem heitir Ove, sem sýndur verður í Valaskjálf á laugardaginn.



Einleikurinn hefur notið fádæma vinsælda í Þjóðleikhúsinu í vetur, en hér er á ferðinni bráðfyndinn og nístandi sænskur einleikur um sorg og gleði, einangrun og nánd – byggður á samnefndri skáldsögu Fredrik Backman.

Hinn 59 ára gamli Ove er reglufastur nákvæmnismaður sem að mati annarra íbúa úthverfisins er óþolandi smámunasamur og skapillur. En að mati hans sjálfs eiga hlutirnir einfaldlega að vera eins og þeir eiga að vera. Þegar ólétt kona að nafni Parvaneh flytur með fjölskyldu sína í götuna er eins og Ove byrji að missa tökin á öllu.

Austfirðingar virðast spenntir fyrir sýningunni en uppselt er klukkan átta og bætt hefur verið við aukasýningu klukkan 18:00.

Hvað er það sem veldur þessum miklu vinsældum? „Hér er á ferðinni saga sem er í senn bráðfyndin með skemmtilegu og fjölbreytilegu persónugalleríi en einnig um sorg og missi og spannar því allan tilfinningaskalann. Vinsældirnar sýningarinnar byggja ekki síður á því að með hlutverk Ove fer Sigurður Sigurjónsson sem er einn okkar fremstu leikara. Hér er hann meira að segja nefndur sem einn af fimmtán bestu leikurum í heimi sem orðnir eru eldri en sextíu ára.Við erum því með heimslistamann sem sýnir allar sínar bestu hliðar sem leikari,“ segir Ari.


Vilja að öll börn hafi sömu tækifæri á að sækja leikhús

Ari segir að frá því hann tók við starfi þjóðleikhússtjóri hafi hann reynt að efla tengslin við landsbyggðina. „Þannig buðum við börnum á öllu landinu í leikhús síðastliðið haust og sýndum á yfir 20 stöðum á landsbyggðinni fyrir rúmlega 3000 gesti auk sýninga á höfuðborgarsvæðinu. Við gerum það vegna þess að mikilvægt er að börn geti fengið að kynnast leikhúsi án aðgreiningar í tengslum við búsetu eða efnahag.

Þjóðleikhúsið er auk þess í samvinnu við landshlutana um Þjóðleik, sem er leiklistarverkefni fyrir 13-20 ára og nú í vor munu einmitt lokahátíðirnar fara fram í hverjum landshluta. Þá stendur fullorðna fólkið eftir og þess vegna komum við með hina vinsælu skemmtilegu sýningu um hann Ove til ykkar.“

Uppselt er á sýninguna klukkan 20:00 en aukasýning verður klukkan 18:00 og enn eru til miðar á hana á Tix.is.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.