Þurfti þor til að byggja upp umhverfi fyrir listsýningu á heimsmælikvarða

Signý Ormarsdóttir, yfirverkefnastjóri hjá Austurbrú, segir forsvarsfólk Djúpavogshrepps hafa sýnt þor við að byggja upp alþjóðlegu myndlistarsýninguna Rúllandi snjóbolta sem opnuð var þar fjórða sumarið í röð á laugardag.


„„Það er nokkuð ljóst að sýningarnar Rúllandi Snjóbolti hafa síðustu ár fært í bæinn gesti, nýja vídd, tilbreytingu og tækifæri hér í samfélagið á Djúpavogi. En það er ekki sjálfgefið að lítið þorp úti á landi taki á móti og byggi upp stórviðburð í listalífinu í samstarfi við listamenn líkt og hér er gert með sýningunni Rúllandi Snjóbolta,“ sagði Signý í opnunarávarpi sínu.

Sýningin er í gömlu Bræðslunni á Djúpavogi sem fengið hefur nýtt hlutverk sýningarsals. Þar eru verk eftir þekktustu myndlistarmenn íslensku þjóðarinnar, meðal annars Ólaf Elíasson og listamenn sem þekktir eru á alþjóðavettvangi.

Í ávarpi sínu talaði Signý meðal annars um mikilvægi listar og menningar fyrir heilbrigði samfélaga og þar af leiðandi skipti máli að þær breiddust um landið en væru „ekki bara í fjöldanum á suðvesturhorninu.“

Hún rifjaði upp þegar ferðamálafulltrúi Djúpavogshrepps sýndi henni fyrst teikningar að eggjunum í Gleðivík sem Sigurður Guðmundsson gerði, en hann er einnig hvatamaður að bakið Rúllandi snjóbolta og annar sýningarstjóra ársins.

„Þetta var í miðju hruni og ég var vægast sagt ekki bjartsýn á það að þetta mikla listaverk yrði að veruleika næstu árin. Vitið menn ekki liðu nema nokkrir mánuðir frá heimsókninni til mín og þar inn um lúguna hjá mér kom boðskort á vígslu Eggjanna í Gleðivík.“

Menningin gerir Djúpavog að áhugaverðum kosti

Hún sagði stuðning sveitarfélagsins hafa skipt máli og það hafi Djúpavogshreppur sýnt á undanförnum árum. Hún nefndi stefnumótun samfélagsins á grundvelli Cittaslow-hreyfingarinnar sem dæmi um sýn við að byggja upp samfélag til framtíðar og hrósaði forsvarsmönnum sveitarstjórnar sérstaklega.

„Þessi einstaka og jákvæða uppbygging síðustu ára hefur leitt til þess að Djúpivogur er einn af áhugaverðari áfangastöðum á Íslandi hvort heldur er til búsetu eða heimsóknar.

Í slíkri uppbyggingu eru það íbúarnir sem eru mikilvægastir en ég held að það sé á engan hallað þó að ég taki út fyrir sviga þá tvo sem draga vagninn, oddvitann Andrés Skúlason og sveitarstjórann Gauta Jóhannesson.

Ber að þakka þeim hvernig þeim saman hefur tekist á ótrúlegan hátt að snúa öllum mótbyr í meðbyr og vil ég segja þorað að byggja upp það sem við erum að upplifa hér í dag. Metnaðarfulla listsýningu á heimsmælikvarða í einstöku samstarfi.

Það eru nefnilega allt of margir sem fara fyrir í pólitík í þessu landi sem leggja mesta áherslu á skjótfenginn gróða og láta stjórnast af framboði og eftirspurn og hugmyndir um arðsemi á ársgrundvelli. En huga minna að menningararfleifð og listsköpun sem leiðir til eflingu gagnrýnnar og skapandi hugsunar sem eykur lífshamingju ekki bara einstaklinga heldur um leið heilu samfélaganna.

Auk þess sem slíkt leiðir til nýsköpunar og lausnamiðaðar þróunar sem vitað er að er forsenda framþróunar í dag. Það er því von mín og trú að listviðburðir og efling lista og menningar í sem fjölbreytilegastri mynd eigi eftir að byggjast áfram upp hér á Djúpvogi og þeir sem fara fyrir sveitarfélaginu hverju sinni sjái mikilvægi og tækifæri í slíkri uppbyggingu.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.