„Þetta verður afar áhugavert“

„Þetta er málþing sem ætti að höfða til flestra,“ segir Arna Silja Jóhannsdóttir, starfsmaður Breiðdalsseturs, en á morgun fer þar fram málþing sem ber yfirskriftina Nútíminn knýr dyra - Svipmyndir af þróun atvinnuhátta og menningar í Breiðdal í lok 19. aldar og á öndverðri 20. öld.



„Við höfum haldið málþing árlega, síðustu tvö ár voru þau af jarðfræðilegum toga og þar áður um málvísindi. Í ár erum við að beina sjónum okkar að þeirri breytingu sem hefur orðið á atvinnumálum og menningu í Breiðdalshreppi síðan byggð hófst og er það málefni sem ællir tengja við,“ segir Arna Silja.

Átta Breiðdælingar flytja erindi og lesa upp. Dagskráin er sérstaklega áhugaverð og ætti enginn að láta hjá líða að mæta nú og njóta samveru með skemmtilegu fólki og hlusta á margs konar fróðleikm en með málþinginu lýkur sumarstarfsemi Breiðdalsseturs.

„Ég vil hvetja alla til að mæta, þetta verður afar áhugavert og frábærir fyrirlesarar,“ segir Arna Silja en nánar má kynna sér dagskrá málþingsins hér.


Fjölmargt annað verður um að vera í fjórðungnum um helgina, meðal annars þetta hér:

Litla ljóðahátíðin
Litla ljóðahátíðin í Norðausturríki hófst í gær, en tilgangur hennar er að auka veg ljóðlistar á svæðinu og færa íbúum á Norður- og Austurlandi bestu skáld landsins í eigin persónu.

Hátíðin fer nú fram í fjórða sinn með viðburðum víða á Norður- og Austurlandi. Markmið hennar er að hvetja skáld á svæðinu til dáða og gefa þeim tækifæri á að koma fram með og mynda tengsl við þau skáld sem fremst standa á landsvísu. Aðalgestir hátíðarinnar í ár eru þau Elísabet Jökulsdóttir, Eyþór Árnason og Soffía Bjarnadóttir. Hér má lesa frétt um hátíðina.

130 ára afmæli Eiðakirkju

Mikil hátíðahöld verða á Eiðum á sunnudaginn þegar 130 ára afmæli Eiðakirkju verður fagnað og nýtt orgel tekið í notkun. Nánar má lesa um viðburðinn hér.

 

Langur laugardagur á Stöðvarfirði
Mikið húllumhæ verður á Stöðvarfirði á morgun á „löngum laugardegi“. Salthúsmarkaðurinn verður opinn og skottsala verður fyrir utan hann. Minjasafn Tona verður opið eftir hádegi, Gallerí Snærós og Svartholið hjá Önnu. Sköpunarmiðstöðin verður opin frá 17:00.

Hið árlega ljóskvöld í Steinasafni Petru verður klukkan 20:00 ef veður leyfir.


Hera í Hellisfirði
Einstakir tónleikar verða í Hellisfirði á laugardaginn, en Hótel Hildibrand í Neskaupstað býður upp á siglingu og tónleikum með Heru undir klettunum á Sveinstaðareyrinni. Bátsferð er innifalin í miðaverði. Nánar má kynna sér viðburðinn hér.


Skemmtileg sýning í Sláturhúsinu
Sýningin Falling&Rising verður í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á morgun milli klukkan 13:00 og 15:00. Um lokasýningu Erasmus plús ungmennaskiptaverkefnis á vegum UÍA og Írskra ungmennasamtaka er að ræða, en það ber yfirskriftina F:Ire and Ice.Ungmennin hafa síðustu daga dvalið í óbyggðum á hálendi Austurlands, skoðað og kynnst náttúrunni og í sameiningu komist yfir ýmsar hindranir sem urðu á vegi þeirra.

Á sýningunni mun hópurinn sýna afrakstur ferðarinnar og deila ólíkum upplifunum sínum af verkefninu í heild sinni. Frítt inn og léttar veitingar í boði. Nánar má fylgjast með viðburðinum hér.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.