Orkumálinn 2024

„Það eru ekki eintómir mánudagar þó svo maður hætti að drekka“

Fjölmennt var á forvarnarfyrirlesturinn Edrúlífinu sem haldinn var fjórða árið í röð á Hammondhátíðinni á Djúpavogi, en viðburðurinn er hluti af fjölbreyttri utandagskrár hátíðarinnar.



Að þessu sinni voru þau Ilmur Kristjánsdóttir leikkona og Stefán Máni Sigþórsson rithöfundur sem voru fyrirlesarar.

Það er Pálmi Fannar Smárason, sjómaður á Djúpavogi, sem er upphafsmaður Edrúlífsins.

„Þetta er fjórða árið sem ég stend fyrir þessu, en þriðja árið undir nafninu Edrúlífið. Upphaflega hugsaði ég þetta aðeins fyrir nemendur í 9. og 10. bekk grunnskóla og kannski foreldra þeirra, en þetta hefur undið upp á sig ár frá ári,“ segir Pálmi.

Pálmi segist hafa kynnt viðburðinn fyrir grunnskólum á svæðinu en ekki fengið mikið viðbrögð, en krakkarnir á Djúpavogi mæti þó alltaf. Hann hefur alltaf fengið þekkta einstaklinga úr samfélaginu til þess að koma og halda fyrirlestra.

„Það skiptir engu máli í mínum huga hvort fyrirlesararnir séu þekktir eða ekki, en við vitum bara að það hefur meira aðdráttarafl ef svo er. Fyrir mér er mikilvægast að fá góðar fyrirmyndir, fólk sem opið með sína edrúmennsku, lifir lífinu og sýnir fram á að það séu alls ekki eintómir mánudagar þó svo maður hætti að drekka. Það er bara alltaf frábært að hlusta á fólk segja frá lífi sínu á einlægan og opinskáan hátt.“

Viðburðurinn hefur orðið fjölmennari ár frá ári, sem er afar gleðilegt, en hann sækja ekki lengur aðeins ungmenni frá Djúpavogi og aðstandendur þeirra, heldur mikið af AA-fólki af öllu Austurlandi, en fyrirlesturinn á laugardaginn sátu um 80 manns.


„Edrúlífið er stór munur fyrir mig persónulega“

Sjálfur hefur Pálmi verið án áfengis í átta ár.

„Edrúlífið er stór munur fyrir mig persónulega, ég var satt best að segja alls ekki góður í því að vera ekki edrú, ég réð ekki við mína drykkju. Ég ákvað strax að ég ætlaði þó ekki að loka mig af heldur taka þátt í öllu því sem væri að gerast í kringum mig og hafa gaman. Góður maður sagði við mig þegar ég var nýbúinn í meðferðinni að ég ætti að gera allt það sem mig langaði, en fara svo heim þegar það væri orðið leiðinlegt. Ég hef farið eftir þessu og drifið mig heim þegar fólk er komið á trúnó og búið að segja mér þrisvar sinnum á sama hálftímanum hve vænt því þykir um mig.“


Ánægjulegt að sjá verkefnið vaxa og dafna

Pálmi telur drykkjumenningu unglinga hafa breyst mikið síðan hann var sjálfur á þeim aldri fyrir um tuttugu árum.

„Mér finnst mikil breyting, það er ekki þessi mikla unglingadrykkja eins og var. Sjálfur byrjaði ég að drekka þrettán ára gamall og það þótti svosem ekkert tiltökumál. Ég hef alls ekkert á móti fólki sem drekkur áfengi og finnst það alveg sjálfsagt, en allir þekkja einhvern í kringum sig sem á í erfiðleikum með vín og þá er gott að umræðan sé orðin opnari í samfélaginu.

Ég man að Rúnar Freyr leikari sagði einhverntíman að það hefði verið hálfgerð opinberun fyrir honum þegar hann sá fræga einstaklinga utan á SÁÁ tímariti og við það hefði þröskuldurinn inn á Vog lækkað um allan helming. Þetta finnst mér einnig vera það sem að Edrúlífið á að standa fyrir, og fólk sjái að það sé enginn dauðadómur að gera eitthvað í sínum málum.“

Pálmi segir afar ánægjulegt að sjá verkefnið sitt vaxa og dafna og falla í svo góðan jarðveg.

„Þetta hefur verið rosalega gaman. Ég hef fengið mikla hjálp og stuðning, bæði í markaðsmálum og í formi styrkja til þess að gera þetta mögulegt. Viðburðurinn er haldinn í nafni Neista, Ágústa Margrét hefur hjálpað mér við auglýsingahliðina, Hótel Framtíð og Bragðavellir hafa stutt okkur með gistingu fyrir gestina og Alcoa hefur styrkt okkur síðustu tvö ár svo eitthvað sé nefnt. Það eru allir mjög þakklátir og ánægðir með framtakið og það er bara hálf vandræðalegt hvað ég fæ mikið hrós fyrir litla vinnu.“

Ljósmyndir: Katrín Reynisdóttir. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.