„Það er einhver galdur sem verður til“

„Ég tel dansbyltinguna skipta mjög miklu máli varðandi það að vekja athygli á málsstaðnum,“ segir Aðalheiður Borgþórsdóttir, sem heldur utan um dansbyltinguna Milljarður rís, á Seyðisfirði á morgun. Aðalheiður er í yfirheyrslu vikunnar.


Dansbyltingin Milljarður rís, á vegum UN Women á Íslandi, er nú haldinn sjötta árið í röð hérlendis og verður dansað á Seyðisfirði, Egilsstöðum og í Neskaupstað.

Dansað fyrir þolendur kynbundins ofbeldis og þeim þannig sýnd samstaða. Milljarður rís er dansbylting sem haldin er víða um heim og með samtakamætti lætur heimsbyggðin til sín taka. Yfir milljarður karla, kvenna og barna kemur saman til að dansa fyrir réttlæti, fyrir heimi þar sem allir fá að njóta sömu tækifæra án ótta við ofbeldi.

Viðburðirnir hefjast klukkan 12:00 á Seyðisfirði og Egilsstöðum en klukkan 12:30 í Neskaupstað.

„Yfirleitt er eitthvað sérstakt mál sett á oddin, nú er það hinn grimmi veruleiki sem Róhingjakonur á flótta búa við í Bangladess, fólk er hvatt til þess að senda sms-ið Konur í 1900 og styrkja málstaðin með 1900 krónum, það skiptir mjög miklu máli. Það að dansað sé í yfir 200 löndum á sama tíma er náttúrulega stórkostlegt,“ segir Aðalheiður.

Aðalheiður segir að samhugurinn og krafturinn meðan á viðburðinum stendur sé magnaður. „Það er einhver galdur sem verður til, frelsi, samkennd, ást og friður flæðir yfir og allt um kring. Einhver ólýsanleg jákvæð orka sem leysist úr læðingi, og við sendum þessa góðu strauma út í kosmósið.“


Fullt nafn: Aðalheiður Borgþórsdóttir.

Aldur: 59 ára.

Starf: Markaðsstjóri og sjálfstætt starfandi ferðaskipuleggjandi meðal annars.

Maki: Sigfinnur Mikaelsson.

Börn: Björt, Jón og Jafet.

Hver er þinn helsti kostur? Ætli það sé ekki bara þolinmæði og þrauseigja.

Hver er þinn helsti ókostur? Ég er vinnualki.

Hver er þinn uppáhalds matur? Grillaður lax.

Er vorið handan við hornið? Er hrædd um ekki.

Hvernig ljómar uppskrift af góðum laugardegi hjá þér? Ekkert plan.

Hvað er í töskunni þinni? Síminn, lyklarnir, peningaveskið, pennar, fjölnota innkaupapoki og alskonar drasl.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Mjólk, ost og smjör.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Heiðarleika, frumkvæði og djörfung.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Börnin mín, þau eru mín fyrirmynd, hafa haft mikil áhrif á mig. Þau breyta lífi mínu og lífsgildum hvern einasta dag.

Settir þú þér einhver markmið um áramót? Nei.

Eftirlætis árstíð og af hverju? Sumarið, af því að það er svo grænt, bjart og stundum hlýtt.

Áttu gæludýr? Nei ekki núna í augnablikinu, hef alltaf átt annaðhvort hund eða kött.

Kaffi eða te? Bæði.

Duldir hæfileikar? Ég tálga, er að læra á básúnu og að læra að teikna. Það eru hæfileikar sem ég ætla að rækta og eiga til góða þegar ég kemst á eftirlaun. Ég verð að hafa eitthvað fyrir stafni, alltaf.

Mesta afrek? Að ganga með og fæða börnin mín.

Besta bók sem þú hefur lesið? Þessi er erfið, það er alltaf sú sem ég er að lesa hverju sinni, ég hef mjög gaman af að lesa krimma en núna er ég að lesa Reisubók Guðríðar Símonardóttur eftir Steinunni Jóhannesdóttur sem fjallar um Tyrkja ránið og sér í lagi hana Tyrkja Guddu, hún er mögnuð.

Hvað er hamingja fyrir þér? Að elska og að vera elskuð.

Hvað ætlar þú að gera um helgina? Slappa af og hitta góða vini.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.