„Þetta var eiginlega lygilegt“

Anya Hrund Shaddock úr félagsmiðstöðinni Hellinum á Fáskrúðsfirði og Stefanía Ýr Sævarsdóttir úr Þrykkjunni á Höfn í Hornafirði tryggðu sér nýverið þátttökurétt á Samfés, söngkeppni félagsmiðstöðva sem haldin verður í Reykjavík í lok mars.


Ellefu atriði voru flutt á SamAust sem haldin var í félagsheimilinu Skrúð og Fáskrúðsfirði fyrir stuttu, en SamAust er undankeppni fyrir söngkeppnina Samfés sem haldin verður í Laugardalshöllinni þann 25. mars næstkomandi. Tvö efstu sætin á SamAust vinna sér inn þátttökurétt í landskeppninni.

Anya Hrund Shaddock bar sigur úr býtum með frumsamda laginu In the end og Hafdís Ýr söng lagið Hollow.

„Þetta var eiginlega lygilegt, atriðin voru hvert öðru flottari og ekki hægt að segja annað en framtíðin sé björt hérna fyrir austan,“ segir Bjarki Ármann Oddsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi í Fjarðabyggð.

Bjarki er ánægður með hversu margir tóku þátt í SamAust, en alls mættu 250 krakkar til leiks frá ellefu félagsmiðstöðvum.

„Það var reyndar aðeins einn strákur meðal keppenda sem er ákveðið áhyggjuefni, við verðum að fara að hvetja strákana okkar enn frekar á þessum vettvangi.“

Bjarki segir mikinn áhuga fyrir keppninni í Fjarðabyggð og stór hópur stefni suður til þess að styðja austfirsku fulltrúana í Laugardalshöll. „Fjarðabyggð á 50 miða á keppnina sem við deilum niður á okkar félagsmiðstöðvar, á þá krakka sem hafa besta mætingu í vetur. SamAust tókst í alla staði mjög vel, krakkarnir voru bæði kurteis og prúð og gaman var að vera í Skrúð sem hefur verið í allsherjar yfirhalningu upp á síðkastið.“

Emmsjé Gauti dæmdi og skemmti

Dómnefndina skipuðu þau Emmsjé Gauti, Elma Valgerður Sveinbjörnsdóttir og Svavar Pétur Eysteinsson betur þekktur sem Prins Póló. Emmsjé Gauti flutti sig svo úr dómarasætinu og á sviðið þar sem hann tók meðal annars svokallað „crowd surfing“ – þar sem hann lét sig detta á áhorfendurnar. DJ Tadas tók svo við og þeytti hann skífum fram á nótt.

 

Ljósmynd; Anya og Guðfinna Erlín Stefánsdóttir, forstöðumaður Hellisins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.