Orkumálinn 2024

„Þetta er víst alveg rosalega stórt“

Norð Austur Sushi og bar á Seyðisfirði er einn fjórtán veitingastaða landsins sem komast á lista White Guide handbókarinnar.



White Guide handbókin birtir á hverju ári umsagnir um veitingastaði á Norðurlöndunum, en afar eftirsótt er að komast í bókina. Útsendarar bókarinnar prófa árlega 800 veitingastaði sem eru svo metnir og þeir bestu rata á síður bókarinnar.

Alls rötuðu fjórtán íslenskir staðir í bókina að þessu sinni, ellefu þeirra eru í Reykjavík, einn á Akureyri, Vestmannaeyjum, Grindavík og svo á Seyðisfirði. Frá þessu er sagt á vefmiðlinum Pressunni og hér má sjá um hvaða staði ræðir. Útgáfudagur bókarinnar er 31. október, og fyrst þá verður ljóst hvernig stöðunum verður raðað í sæti.



„Það er hægt að gera góða hluti hvar sem er“

„Já, þetta er víst alveg rosalega stórt – þetta er stærsta svona bókin á norðurlöndunum og bara það næsta á eftir „Michelin“, segir Davíð Kristinsson, einn eigandi Norð Austur Sushi og bar.

Davíð rekur einnig Hótel Ölduna, eða Nordic Restaurant á Seyðisfirði, og barst bréf fyrir mánuði þess efnis að báðir staðirnir hefðu komist á lista yfir þá staði sem til greina kæmu í bókina.

„Fyrst og fremst er þetta klárlega eitthvað sem við getum verið mjög stolt af, en kokkarnir okkar sem eru „Michelin-kokkar“ voru ógeðslega stoltir af því að útsendararnir hefðu komið til þess að prófa matinn, hvað þá að við næðum þessum árangri. Það sem líka er athyglisvert er að svo ungur staður komist þarna, en það tekur yfirleitt nokkur ár að skilgreina reksturinn og fullmóta hann,“ segir Davíð.

Hvaða máli skiptir þetta í raun og veru? „Þetta er bara rosalega gott klapp á bakið og skerpir okkur í því að halda þeirri stefnu sem við höfum verið á. Ég er ekkert endilega viss um að viðskiptin aukist eitthvað, en þetta staðfestir það að við erum að gera rétt. Það er alveg sama hvar maður er, það er hægt að gera góða hluti hvar sem er – hvort sem það er í Reykjavík eða út á landi, bara ef metnaðinum er viðhaldið og aldrei er slegið slöku við.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.