Orkumálinn 2024

„Þetta er allavega fyrsta stóra skrefið mitt“

Það segja margir að ég eigi framtíðina fyrir mér," segir leikkonan unga, Anja Sæberg, en hún lék aðalhlutverkið í stuttmyndinni Búa sem var sýnd á RÚV um jólin og fór einnig með eitt aðalhlutverkanna í stuttmyndinni C-vítamín sem sýnd var í Bíó Paradís í desember.



Anja er tíu ára og á ættir sínar að rekja til Reyðarfjarðar. Móðir hennar, Linda Sæberg, segir hana hafa haft óbilandi áhuga á leiklist frá unga aldri.

„Hún hefur alltaf verið ákveðin í að verða leikkona, það gengur svo langt að hún er að velta því fyrir sér í hvaða leiklistarskóla hún á að fara eftir menntaskóla og langar helst að fara erlendis og læra – þetta er hennar ástríða. Hún hefur verið í söng- og leiklist hjá Borgarleikhúsinu í tvö ár núna en áður var hún búin að fara á styttri leiklistarnámskeið og söngnám.“

Anja fékk hlutverkið í Búa gegnum Borgarleikhúsið. „Henni hefur gengið mjög vel og hefur unnið sig upp um ákveðna flokka innan leikhússins. Hún er á skrá þar en kennararnir gefa nemendum umsagnir í lok hverrar annar og hennar hafa verið mjög góðar. Í haust var hún svo boðuð í prufu fyrir tvö hlutverk í Búa, aðalhlutverkið sem hún fékk og annað minna. Fjórir tólf tíma tökudagar voru svo í september þar sem hún stóð sig eins og hetja og vel var haldið utan um hana í einu og öllu. Myndin var klippt og unnin úti í Bretlandi og ég frétti að þeir sem hefðu unnið að henni hefðu auðvitað ekki skilið hvað Anja var að segja en áttu þó auðvelt með að átta sig á því þar sem hún lék af svo mikilli innlifun og tilfinningu.“

 

 


Litum hvor á aðra með tárin í augunum

Hvernig var tilfinningin fyrir mæðgurnar að horfa á Önju á hvíta tjaldinu og svo í jóladagskrá sjónvarpsins?

„Þetta var ótrúlega sérstök stund fyrir okkur báðar en við höfum svo oft talað um það þegar við sitjum saman og horfum á mynd að þarna komi nafnið hennar einn daginn þegar stafirnir rúlla upp, sem og að hún eigi eftir að vera á skjánum. Við sátum svo tvær saman í Bíó Paradís og héldumst hönd í hönd. Þegar hún kom á tjaldinu litum við hvor á aðra með tárin í augunum. Eftir myndina sagði hún við mig að sér þætti þetta svo ótrúlegt, hún væri ekki nema tíu ára og hennar stærstu draumar væru búnir að rætast – henni fannst hún svolítið búin að sigra heiminn.“

 


Myndin byggð á eigin æskuminningum

Guðný Rós Þórhallsdóttir frá Egilsstöðum er bæði höfundur og leikstjóri stuttmyndarinnar C-vítamín, en myndin var lokaverkefni þriðju annar hjá henni við Kvikmyndaskólann. Guðný Rós útskrifast frá skólanum í vor.

„Kærastinn minn var leikmyndahönnuður í stuttmyndinni Búa þar sem Anja lék aðalhlutverkið. Hann benti mér á hana þegar ég var að leita að leikkonum í C-vítamín, að hún hefði verið mjög flott og frábært að vinna með henni. Ég ákvað bara að fara eftir eðlisávísun minni og sendi mömmu hennar skilaboð.“

Myndin fjallar um tvær ungar stelpur sem segjast safna pening til styrktar langveikum börnum en eru í raun að eyða peningunum í sig sjálfar. Það kemur babb í bátinn þegar gömul kona fer að skipta sér af söfnuninni þeirra.

„C-vítamín er byggð á minningum frá minni eigin barnæsku. Ég safnaði dóti á tombólu með vinkonu minni og alltaf ætluðum við að fara með peninginn til Rauða krossins. En við freistuðumst til að eyða peningnum í C-vítamín freyðitöflur sem við borðuðum beint upp úr pakkningunni. Ég man ekki til þess að við höfum nokkurn tímann farið í alvöru í Rauða krossinn, við liðum engan C-vítamín skort,“ segir Guðný Rós.

 


Hún er náttúrulegur talent

Guðný Rós segir að Anja hafi strax heillað sig. „Hún er mjög áhugasöm og henni er full alvara með það að verða leikkona og ég er alveg viss um að svo verði. Það vottar ekki fyrir feimni í henni og hún henti sér beint inn í hlutverkið, hún er náttúrulegur talent. Hún var mjög þolinmóð á setti og það er ekki gefið að fá svona þolinmóðan einstakling á hennar aldri. Hún peppaði einnig aðra upp og var alltaf til í allt. Ég vona að ég fái tækifæri til að vinna með henni einhvern tímann aftur. Hún er einfaldlega fagmaður.“

 

Leikkonurnar í C vítamín

Leikkonurnar í C-vítamín með leikstjóranum Guðnýju Rós

 

Skemmtilegt að fá að skipta um karakter

„Að mínu mati er það skemmtilegast við leiklistina að maður fær að skipta um karakter í staðinn fyrir að vera alltaf maður sjálfur,“ segir Anja Sæberg, leikkonan knáa.

Anja segist hafa lært heilmikið í Borgarleikhúsinu, svo sem að tala hratt en skýrt, en að hún hafi þó lært miklu meira á þessum stutta tíma sem hún vann við stuttmyndirnar tvær.

„Já! Ég fattaði til dæmis aldrei hvernig menn taka upp bíómyndir, stuttmyndir eða þætti. Ég hélt það væri bara fullt af kamerum út um allt og hvert atriði bara tekið upp einu sinni eða tvisvar í mesta lagi. En svo er bara alltaf verið að breyta um stað á kamerunni og hvert atriði er tekið upp oft, mjög oft. Fólkið sem vann með mér kenndi mér líka svo margt, allskonar sem ég get lagað þangað til næst.“


Samsamar sig persónunni í C-vítamín

Aðspurð hvort persónurnar sem hún lék í myndunum séu líkar henni sjálfri segir hún: „Sko. Ég hefði aldrei sjálf þorað að gera neitt af þessu sem persónan sem ég lék í Búa gerði, klifra upp húsveggi og eitthvað. En ég verð að viðurkenna að sú sem ég lék í C-vítamín var að gera það sama og ég hef gert með vinkonum mínum. Hún heldur tombólu og skilar peningnum ekki í Rauða krossinn heldur kaupir C-vítamín fyrir peninginn. Við höfum haft tombólu til þess að safna fyrir Rauða krossinn og keypt okkur nammi fyrir peninginn og látið eitthvað smá í Rauða krossinn,“ segir Anja og skellihlær.


„Flestir voru mjög hissa að sjá mig“

Anja segir að hún hafi fengið góð viðbrögð eftir að Búi var sýndur um jólin. „Flestir voru mjög hissa að sjá mig, til dæmis að bekkjarsystir þeirra væri að leika í mynd. Það var pínu skrítið að sjá sig í bíó og í sjónvarpinu og fullt af fólki að horfa á mig. Ég var bara pínu hissa að sjá að þetta væri bara allt komið, að draumurinn minn hefði ræst, en þetta er allavega fyrsta stóra skrefið mitt.“


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.