„Þarna er frá byrjun til enda lygi í Jónasi frá Hriflu“

„Í rauninni er þetta bara í fyrsta skipti sem hátíðin er sjálfstæð, því í fyrra var hún í tengslum við 230 ára kaupstaðarafmæli Eskifjarðar,“ segir Kristinn Þór Jónasson, sem fer fyrir bæjarhátíðinni Útsæðinu á Eskifirði.



Mikið fjör verður á Eskifirði um næstu helgi. Þrjár bíósýningar, Austurlandsmót í hlussubolta og kvöldvaka á Eskjutúninu er meðal þess sem boðið verður upp á.

„Í fyrra var þetta bara í tengslum við afmælið og átti ekki endilega að verða neitt meira. Það myndaðist svo góð stemmning þá og allir voru svo glaðir með framtakið að við ákváðum að prófa aftur, þannig að segja má að þetta sé í fyrsta skipti sem Útsæðið er haldið, þó svo að „annað skipti“ hljómi vissulega betur,“ segir Kristinn.

Kristinn segir að allir séu hjartanlega velkomnir þó svo heimamenn séu sértaklega hvattir til að mæta. „Í fyrra var hverfagrill á Eskjutúninu og þá skiljanlegt að aðrir hafi ekki kunnað við að mæta. Í ár er þetta hins vegar opið og allir velkomnir. Eins og í fyrra leggjum við áherslu á að fá okkar gömlu tónlistarmenn austur og í ár verða með okkur Gildrubræður, Summary of Sound, Króm og fleiri góðir listamenn.“

Hér má nánar kynna sér allt um hátíðnia. 

 

Nafnið veldur fjaðrafoki

Aðspurður út í nafnið á hátíðinni segir Kristinn; „Já, það er von þú spyrjir! Nafnið hefur reyndar valdið töluverð fjaðrafoki hjá eldra fólki í bænum sem er eitthvað viðkvæmt fyrir sögunni sem það er dregið af. Hún segir semsagt að þegar kreppan mikla skall á, kringum 1930, og fór að þjarma að heimilunum, hafi ríkissjóður úthlutað Eskfirðingum útsæði, girðingarstaurum og áburði til þess að rækta kartöflur. Einnig segir að útsæðið hafi aldrei komist niður heldur hafi bæjarbúar étið það og nýtt staurana í eldinn,“ segir Kristinn.


Í hljóðupptöku við Nikolinu Sveinsdóttur, ömmu Kristins, staðhæfir hún að sagan sé uppspuni frá rótum. Upptakan er frá árinu 1965 og er varðveitt á vefnum Ísmús (Íslenskur- músík og menningararfur).

„Hún er bara lygi frá byrjun til enda. Hreppurinn kaupir kartöflur og lætur bæði mig og aðra hafa kartöflur til þess að búa okkur til garða og við búum þá til hjá mér inn hjá mér...“

Sá sem viðtalið tekur segir að Jónas frá Hriflu segi að Eskfirðingar hafi ekki sett niður útsæðið, heldur étið það.

„Þarna er frá byrjun til enda lygi í Jónasi frá Hriflu, það hefði ég þorað að segja við hann.“

Nikólína var fædd árið 1888 og lést árið 1966, ári eftir að upptakan var. Viðtalið í heild sinni má hlusta á hér.

Ljósmynd: Jakob Már Snævarsson. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.