„Þarf bara að lifa fyrstu þrjá dagana af“

„Það fer ekki nógu vel saman að vera með byrjendur og lengra komna á æfingum, en með þessu móti fá allir meiri fókus, bæði þeir sem eru að stíga sín fyrstu skref og þeir sem eru vanir,“ segir Birgir Örn Tómasson, formaður Brettafélags Fjarðabyggðar, en félagið býður nú upp á námskeiðið fyrir börnum á aldrinum fjögurra til tíu ára.Er þetta í fyrsta skipti sem Brettaskólinn er starfræktur og er viðbót við hefðbundnar æfingar félagsins.

„Við höfum fundið fyrir miklum áhuga og fengum styrki frá Alcoa og UÍA til þess að koma þessu á laggirnar og getum þar af leiðandi haldið kostnaðinum niðri til þess að byrja með,“ segir Birgir.

Æfingar verða tvisvar í viku, á fimmtudögum frá klukkan 17:00-19:00 og á laugardögum frá 13:00-15:00. Þjálfarar eru þeir Björgvin Hólm Birgisson og Stefán Einar Kristjánsson.

„Við erum með mjög góða þjálfara – Björgvin er með alþjóðleg þjálfararéttindi sem hann tók í Kanada og Stefán er einnig mjög góður og hefur verið að þjálfa lengi. Það er vaxandi brettaáhugi, krökkunum finnst þetta verulega spennandi, enda miklu meiri leikur á bretti en skíðum – þar sem mest er verið að renna sér í braut en stökkva og gera allkonar trix á brettinu.“


Óþarfi að byrja fyrst á skíðum

Birgir segir vissan misskilning ríkja í samfélaginu um snjóbrettaiðkun. „Fólk virðist almennt telja að krakkar eigi að byrja á skíðum áður en þeir fara á bretti. Það er alls ekki rétt því þetta er tvennt ólíkt og börn allt niður í þriggja ára geta vel farið á bretti alveg eins og á skíði.

Við höldum því reyndar fram að lærdómskúrfan sé miklu hraðari á bretti en á skíðum. Byrjendur ná reyndar að renna sér fyrr á skíðum en maður er miklu fjótari að ná góðum árangri á bretti, sérstaklega undir góðri leiðsögn. Það þarf bara að lifa fyrstu þrjá dagana af, þá er þetta komið.“

Kynning á Brettaskólanum verður næstkomandi fimmtudag og er mæting við skálann í Oddsskarði klukkan 17:00. Iðkendum býðst að fá lánaðan búnað fyrstu tvo dagana í samvinnu við Skíðasvæðið í Oddsskarði.

Þátttökugjald er 7.000 kr. og er gert ráð fyrir að námskeiðið vari út tímabilið. Skráningar og fyrirspurnir skal senda á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar