Þáði notaða peysu af ömmu sinni

„Mér fannst þetta aldrei neitt mál. Ég var alls ekki kærulaus þannig séð, heldur lifði mig inn í móðurhlutverkið og notaði taubleijur sem ég straujaði af hjartans lyst,“ segir Dagný Sylvía Sævarsdóttir sem er í opnuviðtali Austurgluggans sem kemur út á morgun.



Héraðsbúinn Dagný Sylvía hefur verið búsett í Danmörku með fjölskyldu sinni í fimmtán ár og starfar þar sem gjörgæsluhjúkrunarfræðingur. Í viðtalinu segir hún meðal annars frá því þegar hún kynntist manni sínum, Sigfúsi Jónssyni og fyrstu árum þeirra saman. Þau eignuðust dæturnar Aldísi Önnu þegar Dagný var tvítug og Ásrúnu Svölu tveimur árum síðar.

„Mér þótti ekkert tiltökumál að vera ólétt tvítug en vinkona mín var það einnig og margar stelpur í kringum mig orðnar mæður. Foreldrum mínum brá aðeins og fósturpabbi sagði: „Er barnið með barni?“ en honum þótti ég líklega heldur ung.

Ég gekk meira að segja svo langt að ég þáði notaða peysu af ömmu til að klæðast á seinni meðgöngunni til þess eins að sýna umheiminum hversu fullorðin ég væri, en þá var ekki í tísku að klæðast fötum af ömmu sinni.

Ástæðan fyrir því hve lítið mál þetta var er kannski sú að ég spáði ekkert alltof mikið í hlutina. Ég held bara hreinlega að ég hafi ekki haft þá vitneskju sem maður hefur í dag til þess að hlaða utan á sig áhyggjunum. Þetta afslappaða andrúmsloft smitaðist líklega yfir á dæturnar sem voru frekar þægileg og róleg börn, allavega svona í minningunni, annars er ég voðalega fljót að gleyma öllu því neikvæða.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.