„Það þurfa jú allir að fara í klippingu“

„Verðlaunin skipta mig gríðarlega miklu máli og ég er ennþá pínu klökk yfir þessu öllu saman,“ segir Norðfirðingurinn Klara Ívarsdóttir, sem varð Íslandsmeistari í hársnyrtiiðn á dögunum.



Keppnin samanstóð klippingum og litunum, bæði dömu og herra ásamt ýmsu öðru. „Þetta veitir mér svo mörg tækifæri og býður uppá fjölmarga möguleika, en ég hlaut þáttökurétt á Euroskills eða Evrópumeistaramótinu sem verður haldið í Búdapest 2018. Fram að því mun ég svo keppa á minni mótum en ég er einmitt á leiðinni til Finnlands núna að keppa á móti sem kallast IAHS,“ segir Klara.



Klara klárar námið um næstu jól. „Ég ætlaði sko heldur betur ekki alltaf í hárgreiðslu. Fyrst var ég ákveðin í að fara í bifvélavirkjann en hætti svo snarlega við og skráði mig eiginlega óvart í hárgreiðslu. Þegar ég kláraði svo náttúrufræðibrautina var stefnan tekin á lækninn eða tannlækninn. Ég lenti eiginlega inni á Eplinu, sem er stofan sem ég vinn á fyrir sunnan, fyrir algjöra slysni og ákvað að henda inn umsókn. Þegar einar dyr lokast þá opnast aðrar og það var akkúrat þannig hjá mér – ég var ráðin tveimur dögum síðar og þá var ekki aftur snúið og er ég þeim ótrúlega þakklát fyrir tækifærið. Ragga og Birna, meistararnir mínir eru algjörir dýrlingar og ég á þeim margt að þakka.“



Náttúrulegt hár það vinsælasta í dag

Klara segir mikla möguleika fyrir þá sem starfa í faginu. „Já, alveg helling, hvort maður vill vinna á stofu, í leikhúsi, í bíómyndum eða einhverju öðru, það þurfa jú allir að fara í klippingu. Greinin er svolítið „upp og niður“, hárgreiðslufólk starfar að meðaltali 9-12 ár áður en það leitar eitthvert annað en það verður að teljast frekar lítið miðað við aðrar greinar. Margir fá ofnæmi, þar sem við erum að vinna með sterk efni daglega og aðrir þola ekki álagið, bæði líkamlega og andlega. Þetta er auðvitað ekki algilt en því miður mjög algengt.“

Sjálf segist Klara stefna að því að verða flottur fagmaður. „Ég ætla að halda áfram því sem ég er að gera því það er greinilega að virka. Skapandi vinna heillar mig mjög en þar dett ég alveg í „zone“. Mér finnst skemmtilegast þegar kúnninn labbar inn og segir „gerðu bara eitthvað flott, ég treysti þér fyrir þessu“.

Klara segir það vinsælasta í dag vera eins náttúrulegt hár og mögulegr er. „Fallegir liðir, „Balayage“ í náttúrulegum litum, hin sívinsæla „bob“ klipping er það helsta hjá konum. Hjá körlum hinsvegar er permanent að koma sterkt inn og svo er „high fade“ með línu í skiptingu nokkuð vinsælt.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.