„Sýnum samstöðu og fögnum fjölbreytileikanum“

„Af þátttökunni og móttökunum að dæma skiptir það greinilega miklu máli að ganga á fleiri stöðum á landinu en í Reykjavík,“ segir Snorri Emilsson, sem er í forsvari fyrir gleðigönguna Hýr halarófa á Seyðisfirði á laugardaginn.



Fyrst var gengið á Seyðisfirði fyrir fjórum árum. „Það kom nú þannig til að ég komst ekki það árið til þess að ganga með dóttur minn í Reykjavík og ákvað því að ganga hér á sama tíma og úr varð að við fórum nokkur saman. Ég setti inn mynd á Facebook og fékk um leið athugasemdir þess efnis að ég hefði átt að láta vita af uppátækinu, þannig að ég ákvað að árið eftir myndi ég útbúa viðburð,“ segir Snorri.

Árið 2015 var því fyrsta formlega Gleðigangan haldin á Seyðisfirði. „Þá hófu 75 manns gönguna en hana kláruðu 125, það bættist alltaf í eftir því sem á hana leið. Í fyrra gengu svo með okkur um 200 manns þannig að ég býst við sambærilegum fjölda í ár.“

Safnast verður saman í Norðurgötunni klukkan 13:00 og gangan hefst klukkan 14:00. „Í fyrra tók Norðurgötuhópurinn sig til og málaði verslunargötuna og nú er búið að skerpa á henni, þannig að við erum með heilsárs regnbogagötu hér á Seyðisfirði.“

Gleðihlaup og stuð á Kaffi Láru
Hýra halarófan hefur undið upp á sig því á föstudagskvöldið verður 5 kílómetra Gleðihlaup á Seyðisfirði, þar sem fólk er hvatt til þess að mæta í litskrúðugum fötum. Nánar má fylgjast með hlaupinu hér.

Veitingahúsið Kaffi Lára tekur þátt í gleðinni og fagnar fjölbreytileikanum, en bæði verða viðburðir tengdir göngunni á föstudag og laugardag. Dagskrána má sjá hér.

Fín veðurspá fyrir laugardaginn
Snorri segir fólk ánægt með að eiga þann kost að ganga einnig í heimabyggð. „Ég hvet alla til þess að koma og ganga með okkur, sýna samstöðu og fagna fjölbreytileikanum. Mér skilst meira að segja að spáin sé þokkaleg og bara næstum því góð fyrir laugardaginn.“

Ljósmynd: Tara Ösp Tjörva.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.