Stólalyfta sett upp í sundlauginni: Skiptir öllu máli fyrir fatlaða gesti

Stólalyfta, gefin af Soroptimistaklúbbi Austurlands, var tekin í notkun í sundlauginni á Egilsstöðum á miðvikudag. Lyftan auðveldar mjög aðgengi fatlaðra að lauginni.


„Lyftan skiptir öllu máli fyrir fatlaða gesti sundlaugarinnar. Það er skábraut ofan í sundlaugina sjálfa en aðgengi að heitu pottunum hefur verið nánast ómögulegt nema með handafli.

Það skiptir líka máli á góðviðrisdögum að geta boðið fötluðum að vera í busllauginni,“ segir Karen Erla Erlingsdóttir, forstöðumaður Íþróttamiðstöðvarinnar á Egilsstöðum.

Lyftan er færanleg og getur ýmist verið við pottana eða horni við busllaug og sundlaug. Sá sem notar lyftuna sest í stól og er síðan hífður ofan í af starfsmanni eða stýrir lyftunni sjálfur.

Lyftan er gjöf frá Soroptimistaklúbbi Austurlands en safnað hefur verið fyrir henni undanfarin ár. „Við seljum kærleikskúlur og jólaóra á hverju ár og fáum þúsund krónur af hverri sölu til að auðga líf fatlaðra ungmenna í heimabyggð,“ sagði Þorbjörg Gunnarsdóttir,

Lyftan kostaði 1,5 milljónir hingað komin og pöntuðu klúbbsystur hana sjálfar frá Bandaríkjunum. Lyftan kom austur síðasta haust og fór veturinn í velja staðsetningu við laugina og undirbúa hana.

Guðni Sigurðsson, sem situr í stjórn Sjálfsbjargarð, bæði á mið-Austurlandi og landvísu, sagði mikið ánægjuefni að öflug félagasamtök eins og Soroptimistar söfnuðu fyrir svona grip.

Sjálfsbjörg ræðst í eitt átaksverkefni á ári og að þessu sinni eru aðgengismál að sundlaugum í brennidepli. Tekið verður út aðgengi í tvær sundlaugar á mið-Austurlandi og er Egilsstaðalaugin önnur þeirra.

„Við erum með form sem við fyllum út og afhendum bæði til bæjarfélagsins og landsskrifstofunnar. Þannig geta okkar félagar vitað hvar aðgengi er gott. Það er ekkert leiðinlegra en að koma af stað þar þar sem er svo ekkert aðgengi.“

Björn Ingimarsson, bæjarstjóri, hrósaði Soroptimistum fyrir þrautseigju við söfnunina. „Það eru samtök sem þessi sem gera okkur kleift að stíga skrefin sem við viljum gjarnan setið þannig allir geti setið við sama borð. Það hefur verið virkilega gaman að fylgjast með hve ákveðinn hópurinn hefur verið í að ná þessu markmiði.“

Soroptimistaklúbbur Austurlands er hluti af alþjóðahreyfingu Soroptimista sem hefur það að markmiðið að efla og styrkja stöðu kvenna og stúlkna. Klúbburinn starfar á Fljótsdalshéraði, Borgarfirði og Seyðisfirði en í klúbbnum eru um 30 konur. Til stendur að stofna klúbb í Fjarðabyggð.

Fanney Sigurðardóttir prófar nýju lyftuna undir stjórn Hafsteins Ólasonar, starfsmanns sundlaugarinnar.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.