Stofnaði fyrirtæki til að geta unnið við draumastarfið

Anna Katrín Svavarsdóttir sagði upp vinnunni sem hún var í fyrir tveimur árum og hellti sér út í eigin rekstur til að geta gert það sem henni þótti gaman. Hún tekur nú þátt í verkefni sem miðar að því að efla konur sem vilja fara út í eigin rekstur.


„Vorið 2015 sagði ég upp vinnunni sem umhverfisfulltrúi hjá Fjarðabyggð og Teiknistofan AKS varð til,“ segir Anna Katrín Svavarsdóttir í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

„Það gerði ég til að fá að nýta menntun mína í skipulagsfræði og uppfylla draum minn um að vinna við landslagshönnun og umhverfisskipulag og fá að teikna.“

Hún segir að þær kröfur sem gerðar séu til starfsfólks stjórnsýslunnar hafi orðið til þess að hún fékk ekki að teikna eins og hana langaði til. Öll sú vinna var seld út. Ég hugsaði að ég vildi vera þar.“

Hún segist hafa farið rólega af stað og verkefnið hafi verið mikil áskorun fjárhagslega. „Ég var á skítalaunum til að byrja með, borgaði mér varla út nema rétt svo fyrir lánunum og svo notaði ég sparnaðinn.“

Síðasta vor bætti hún við sig skiltagerð, sem var áður hluti af fyrirtæki manns hennar Björgvins Elíssonar, en skiltagerðin gerir ýmsar merkingar. Um leið bættist við starfsmaður, Sóley Valdimarsdóttir, sem lærði umhverfisskipulagsfræði í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, líkt og Anna Katrín.

Hópur fyrir frumkvöðlakonur

Síðasta haust bauðst Önnu Katrínu síðan að fara á námskeið í Sheffield á Englandi en ferðin var hluti af verkefni sem Vinnumálastofnun heldur utan um og miðar að því að aðstoða konur á landsbyggðinni, sem hafa hugmyndir eða hafa stofnað fyrirtæki, að hrinda viðskiptahugmyndum sínum í framkvæmd.

Síðan hefur Anna Katrín haldið utan um hóp frumkvöðlakvenna á Austurlandi. „Það eru 40 konur í hópnum, víðsvegar af Austurlandi og pláss fyrir fleiri. Fyrst og fremst er hann fyrir konur í atvinnurekstri eða sem eru áhugasamar um atvinnurekstur. Þær eru kannski með hugmyndir en vita ekki hvað þarf til að fara af stað eða eru í fullri vinnu og eru að meta hvað sé skynsamlegt að gera.

Kynnast má hópnum með að leita uppi „Frumkvöðlakonur á landsbyggðinni – Austurland“ á Facebook. Hópurinn kallar síðan til sín fyrirlesara eftir því hvers konar fræðslu hann vill. „Það er engin fastmótuð stefna. Við förum bara eftir hvar áhuginn er.“

Og þótt róðurinn hafi stundum verið þungur er Anna Katrín ánægð með að hafa tekið stökkið. „Mér fannst ég ekki vera að gera það sem ég vildi gera og ef ég ætlaði það þá var þetta rétta leiðin fyrir mig. Það er um að gera fyrir konur að kynna sér málin en það er allt í lagi að stökkva af stað í djúpu laugina.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.