„Staðráðin í því að verða ekki fórnarlamb gigtarinnar“

„Á þessum tíma var ekki búið að opna þessa umræðu og maður taldi sér trú um að þetta væri bara aumingjaskapur,“ segir segir Stöðfirðingurinn Solveig Friðriksdóttir um baráttu sína við vefjagigt. Solveig var í forsíðuviðtali síðasta Austurglugga.


Solveig, eða Solla eins og hún er alltaf kölluð, fór fyrst að finna almennilega fyrir einkennum vefjagigtar þegar hún gekk með börnin sín, en aðeins eru 18 mánuðir á milli þeira og eru þau fædd árið 1999 og 2001. Hún segir að sér hafi þótt erfitt að snúa aftur til vinnu eftir fæðingarorlof.

„Ég hafði varla orku til að takast á við tilveruna. Ég var alltaf að leita leiða til þess að minnka gigtareinkennin og þá með mataræði, hreyfingu, jóga, slökun og hugleiðslu. Ég var stöðugt með mikla verki auk þess sem gigtinni fylgir svokölluð heilaþoka, einbeitingaskortur og minnisleysi en það er ekki góð blanda fyrir kennara og móður ungra barna. Ég var þó svo heppin að vera mest í sérkennslu en bekkjakennsla rændi mig of mikilli orku. Á þessum tíma var ekki búið að opna þessa umræðu og maður taldi sér trú um að þetta væri bara aumingjaskapur. Af hverju gat ég ekki unnið fulla vinnu eins og hver annar?“


„Mér fannst ég svífa“

Solla kynntist jóga nokkrum árum áður, meðan hún var í háskólanámi sínu í sálfræði við Háskóla Íslands. Hún byrjaði að kenna jóga á Stöðvarfirði árið 2003 og tók svo jógakennaramámið árið 2007 og hefur allan tímann kennt sama kjarnanum.

„Ég segi alltaf að ég hafi átt að hitta jógað en það hefur hjálpað mér mest í gegnum þetta allt saman. Ég upplifði tilfinningu í slökuninni í mínum fyrsta tíma sem ég hafði aldrei upplifað áður og mun líklega aldrei upplifa aftur; mér fannst ég svífa. Þá var búið að kveikja. Ég var komin heim, jógað var mitt.“ 


„Var eins og ég rynni úr álögum“

Solla segist hafa verið skeptísk á lyfjainntöku í tengslum við gigtina. „Hreyfingin hefur verið mitt verkjalyf. Fyrir nokkrum árum ákvað ég þó að prófa ákveðið lyf sem gerbreytti allri minni líðan. Það var eins og ég rynni úr álögum, verkirnir minnkuðu og orkan jókst. Ég á þó aldrei verkjalausan dag en ástandið er ekki lengur þjakandi. Ég hef líka þurft að læra að sníða mér stakk eftir vexti því ef ég fer yfir strikið er ég lengi að vinna mig til baka. Eftir að líðan mín batnaði hef ég tvívegis gegnið fram af mér varðandi vinnu þegar mér fannst ég orðin svo hress að ég gæti unnið fulla vinnu. Það kom í bakið á mér og í seinna skiptið var ég tíu mánuði að ná mér aftur á strik.

Ég er dugleg að stunda jóga og aðrar æfingar til þess að halda styrk og teygja á stífum vöðvum. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á því að vinna í hugarfarinu og það hefur fleytt mér ansi langt. Ég hef alltaf verið staðráðin í því að verða ekki fórnarlamb gigtarinnar, heldur að læra að vinna með hana og lifa lífinu. Þetta er verkefni sem ég tekst á við á hverjum einasta degi. Ég er alltaf að vinna að því að halda mér í besta standi sem ég get verið í hverju sinni en fyrir utan áföll þá er gigtin mitt stærsta þroskaverkefni. Í dag er ég hálfpartin búin að gleyma erfiða tímanum, aðallega vegna þess að ég kýs að dvelja ekki í honum.“ 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.