Slökun á Borgarfirði losaði um sköpunargáfuna

Tónskáldið Bára Gísladóttir þakkar dvöl á Borgarfirði eystra fyrir að hafa komið sköpunargáfu sinni af stað á ný. Bára var meðal þeirra sem tilnefnd voru til tónlistarverðlauna tímaritsins Reykjavík Grapevine í ár.

Í úttekt blaðsins er Bára sögð vera ein af stjörnum klassískrar tónlistar á Íslandi sem sé að öðlast nýtt líf með nýrri kynslóð sem sé óhrædd við að prófa sig áfram.

Bára, sem er tónskáld og kontrabassaleikari, samdi meðal annars verk sem danska sinfóníuhljómsveitin flutti í fyrra auk þess sem hún gaf út plötuna „Mass for Some“ í haust.

Í viðtali við Grapevine segist Bára vera vinnualki og hún hafi verið nánast útbrunnin síðasta sumar. Til að ná úr sér þreytunni fór hún til Borgarfjarðar ásamt vini og dvaldi þar um tíma.

„Þar fékk ég hugmyndina að plötunni og samdi hana. Ég tók hana upp þegar ég kom aftur til baka.“

Á nýju ári hyggst Bára verja kröftum sínum í að spila með kammersveitinni Elju auk þess sem hún er að semja fyrir drengjakór danska ríkisútvarpsins. Hún segir sígilda tónlist njóta vaxandi vinsælda á Íslandi og tónlistarhátíðir á borð við Iceland Airwaves bjóði upp á fleiri tónlistarstefnur en áður.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.