Orkumálinn 2024

Skildu við Sviss og fluttu til Djúpavogs: Tókum ákvörðunina með hjartanu, ekki höfðinu

Peter Schmalfuss og Daniela Pfister Schmalfuss voru búin að koma til Íslands árlega frá árinu 2010 þegar þau ákváðu að segja upp vinnunni í Basel í Sviss og byrja nýtt líf á stað með nafni sem vinir þeirra höfðu aldrei heyrt og gátu ekki borið fram. Þau hafa nú búið á Djúpavogi í um ár og kunna vel við sig í afslöppuðu umhverfi.


„Við tókum algjörlega rétta ákvörðun með að flytja. Djúpivogur er staður fyrir sálina,“ segir Daniela í viðtali við síðasta tölublað Austurgluggans en þau hafa búið í um ár á Íslandi.

Aðdragandinn að því var ævintýralegur. Þau komu fyrst til Íslands árið 2010 og heilluðust svo af landinu að þau komu aftur á hverju ári. „Vinir okkar spurðu hvert við ætluðum í frí þetta árið og við svöruðum til Íslands. Þeim fannst furðulegt að við færum aftur og aftur,“ segir hún.

Ákvörðunin um að flytja til Íslands kom þó ekki strax og ekki endilega af góðu en þau horfðu á eftir 14 vinum og ættingjum á einu ári. Þau segjast hafa íhugað hvort þau ætluðu að vinna alla daga í þeirri von að hafa heilsu til að njóta lífsins þegar þau yrðu 65 ára eða leggja í ævintýri. Þau voru líka búin að fá sína áminningu því átta ár eru síðan Peter fékk hjartaáfall.

Þeim leið ekki illa í Sviss, voru ánægð í sínum störfum og sínu lífi. Enda segir Daniela ákvörðunina um að flytja hafa verið tekna með „hjartanu, ekki höfðinu“.

Keyptu íbúðina í gegnum netið

Á ferðum sínum um Ísland höfðu þau eignast vini á Djúpavogi sem hjálpuðu þeim að finna húsnæði þar. Daniela og Peter keyptu húsið eftir að hafa aðeins skoðað það á netinu.

„Við sögðum bara já. Við sáum aldrei húsið. Það er bilað að kaupa hús beint úr vörulista,“ segir Peter við.

Þau skildu við allt í Sviss því ekki voru efni til að halda heimili í tveimur löndum. „Fólkið heima spurði hvað við værum að gera og við svöruðum: „Engin áhætta, ekkert gaman.“ Það spurði hvort við yrðum ekki bara smá stund og kæmum svo aftur en við höfum ekkert efni á því,“ segir Daniela.

„Allir vinir okkar héldu fyrst að við værum að flytja til Reykjavíkur en við svöruðum að hún væri fín en samt borg með sama stressinu og aðrar slíkar. Við vildum fara og hitta Íslendinga. Vinir okkar flettu Djúpavogi upp á Google Maps og spurðu hvort við værum alveg viss og hvort það væri verslun á staðnum og þess háttar,“ heldur Peter áfram.

Gullverðlaun til vingjarnlegasta fólks í heimi

Þau unnu bæði á sjúkrahúsi í Basel í Sviss, Peter sem hjúkrunarfræðingur og Daniela sem ljósmyndari. Hann réði sig í vinnu hjá Búlandstindi en hún í Kjörbúðinni.

Þau tala bæði um frelsi og minna stress sem hafi fylgt því að minnka við sig vinnu. „Síðustu 40 ár var ég vinnuþjarkur,“ segir Peter og Daniela bætir við: „Maður þroskast með aldrinum og gerir sér grein fyrir að lífið er ekki endalaust. Það er líka til að njóta en ekki bara til að vinna og sofa. Að lokum áttar maður sig á hverju maður hefur misst af.“

Þeim líður vel á Djúpavogi og nýta frítímann í að læra íslensku. „Íslenskan er áhugavert mál, í henni eru eldgömul þýsk orð og því er gott að kunna þýskuna. Við erum farin að skilja hvernig beygingarnar virka. Við reynum að nota orðin sem við kunnum því þannig sýnum við vilja til að læra. Ég gleðst yfir hverju orði sem einhver annar skilur,“ segir Daniela.

Og þeim þykir afar vænt um hve hlýlega Djúpavogsbúar hafa tekið á móti þeim. „Ég hef skrifað marga tölvupósta heim til fjölskyldu og vina og sagt að ef við gætum veitt gullverðlaun til vingjarnlegasta og hjálpsamasta fólks í heimi þá færu þau til Djúpavogsbúa.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.