Skíðasvæðin opna: Loksins gerðist eitthvað af viti

Skíðasvæðið í Stafdal opnar í kvöld og svæðið í Oddsskarði á morgun. Snjóleysi hefur hrellt Austfirðinga það sem af er vetri en mjöllin birtist allt í einu í vikunni.


„Það var eitthvað komið en á miðvikudag gerðist loksins eitthvað af viti,“ segir Agnar Sverrisson, rekstrarstjóri skíðasvæðisins í Stafdal.

„Við höfum alveg séð meiri snjó en hann dugir til að hylja braut.“

Svæðið er opnað óvenju seint en undanfarin ár hefur það yfirleitt verið opnað í desember. Agnar man þó eftir verri árum og bendir áð fyrir nokkrum árum hafi ekki verið hægt að skíða í Stafdal fyrr en 17. febrúar.

Opnað verður klukkan 17 í dag og opið til 20. Frítt er í fjallið fyrsta daginn. Þá verður frítt í fjallið fyrir krakka á sunnudag í tilefni af alþjóða snjódeginum, leikjabraut og heitt kakó í boði. Opið er 11-16 á laugardag og 10-16 á sunnudag.

Aðeins neðri hluti svæðisins er opinn en Agnar segir eftir að laga til í þeim efri. Færið er fínt. „Þetta er troðinn púðursnjór sem marrar í þegar maður gengur. Frosinn en samt mjúkur. Það er dásamlegt færi.“

Skíðasvæðið í Oddsskarði verður opið á morgun frá 11-15. Á hádegi afhendir Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, formlega nýjan snjótroðara til svæðisins. Eins verður tekið í gagnið nýtt aðgangsstýringarkerfi.

Eftir skíði má benda á Útsvar en Fjarðabyggð mætir Reykjavík þar í kvöld. Keppnin hefst klukkan 20:15.

Höttur leikur einnig tvo leiki í körfuboltanum um helgina gegn Ármanni. Fyrri leikurinn er 19:30 í kvöld en sá seinni 14:00 á morgun.

Þá verður árleg fimleikasýning Hattar klukkan 13:00 á sunnudag. Strumparnir verða teknir fyrir í ár.

Úr Stafdal í dag. Mynd: Agnar Sverrisson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.