Seyðisfjörður Archive: Skrifaði 30 ástarbréf til Bjarkar

Þrír Danir sem dvalið hafa langdvölum á Seyðisfirði hafa tekið til við að safna saman textum sem ritaðir hafa verið á staðnum í einskonar skjalasafn. Þau ætla árlega að gefa út lítil textasöfn og fyrsta safnið er komið út.

Þau Jonatan Spejlborg Jensen, Lasse Høgenhof og Nanna Juelsbo hafa öll dvalið mikið á Seyðisfirði undanfarið en þeir Jonatan og Lasse eru skólastjórar Lungaskólans. Þau fóru að hugsa um allan þann fjölda fólks sem staldrar við á Seyðisfirði í lengri eða skemri tíma og skrifar á meðan. „Við fórum að velta því fyrir okkur hvað það eru margir sem staldra hér við eða eiga leið hér um sem skrifa, eða skapa eitthvað í orðum. Bæði listamenn og annað fólk, heimamenn og gestir. Þess vegna vildum við fara að safna þessu, búa til skjalasafn Seyðisfjarðar. Þetta geta verið skáldsögur, ljóð eða orðalist hverskonar eina skilyrðið er að þetta sé unnið á Seyðisfirði,“ segir Nanna.

Áætlað er að gefa árlega út lítil textasöfn og fyrsta safnið er komið út. „Við höfum verið að safna saman texum síðan síðasta sumar. Þetta er fyrsta útgáfan, textar frá þessu fyrsta ári. Textinn er allur á ensku nema eitt hljóðverk á finnsku. Það eru 9 listamenn sem eiga efni í fyrstu útgáfunni, 8 textahöfundar og ein myndlistarkona sem á mynd sem fylgir. Þetta skapað á Seyðisfirði,“ segir Nanna en hún gerir sem fyrr segir ráð fyrir því að útgáfan verði árleg. Eins útilokar hún ekki að til fjölbreyttari útgáfu en árlegra ritsafna geti komið. „Við hittum einn bandarískan listamann sem hafði skrifað 30 dásamleg ástarbréf til Bjarkar Guðmundsdóttur á meðan hann dvaldi hér á Seyðisfirði. Í þessari útgáfu núna eru 5 þessara bréfa en við erum að velta því fyrir okkur að hafa eina útgáfu með þessum bréfum eingöngu. Þau eru alveg rosalega falleg.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.