„Sex dögum síðar vaknaði ég á spítala, frekar laskaður“

Rúmt ár er liðið síðan Óttar Mára Kárason slasaðist illa þegar hann rúllaði niður snarbratta fjallshlíð og endaði niður í grýttri fjöru í Njarðvík þar sem hann var að tína egg ásamt félögum sínum. Aðeins þremur vikum síðar var Óttar mættur meðal áhorfenda á EM í Frakklandi.


„Ég er nýbúinn að halda upp á það er ár liðið frá slysinu. Það varð 20. maí í fyrra,“ segir Óttar í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Á enni hans er sjáanlegt stórt ör og það mun hann að líkindum bera lengi. „Það á eftir að koma í ljós hve illa ég fór. Ég brotnaði á fimm stöðum á höfuðkúpunni, illa á báðum úlnliðum, sá vinstri fór eiginlega í mask. Ég verð sennilega skaddaður og eitthvað lamaður í honum það sem eftir er.

Ég held að endurhæfingin hafi gengið vel. Ég er nokkuð sáttur miðað við hvernig þetta leit út á tímabili. Ég treysti mér til að gera næstum allt sem ég gat fyrir.“

Það er ekki illa sloppið miðað við það sem gerðist. Óttar og þrír félagar hans hættu að vinna í hádeginu á föstudegi og héldu yfir í Njarðvík til að tína egg. „Það gekk vel og við vorum komnir að síðasta eggi, að við héldum. Sex dögum seinna vaknaði ég á spítala, frekar laskaður,“ segir Óttar en hann man ekkert eftir slysinu og eftir það vantar nokkra daga.

„Ég man fram að tveimur sekúndum áður en ég dett. Það sá mig enginn detta svo við vitum ekki nákvæmlega hvernig ég datt en ég veit ég var að klífa fyrir nibbu.“

Fór með eftirhermur í sandinum

Óttar féll um tíu metra í lausu lofti en lenti síðan í aflíðandi gróinni brekku sem virðist hafa bjargað miklu. Niður hana rúllaði hann eina fimm metra í viðbót áður en hann staðnæmdist niður í fjöru.

Félagar hans sáu á eftir honum og var skiljanlega illa brugðið. Einn tók beint á rás eftir honum niður en annar hljóp inn í Njarðvík til að geta kallað á hjálp því ekkert símasamband var þar sem slysið varð.

Björgunarsveitin á Borgarfirði brást hratt við og var kominn með bát sinn út úr húsi níu mínútum síðar. Viðbragðið var snarpt þar sem á þessari stundu var ekki ljóst hvort Óttar væri lífs eða liðinn í fjörunni. Björgunarlið var komið í fjöruna til Óttars hálftíma eftir að hann lenti þar.

Hann er fólkinu þakklátur fyrir fumlaus viðbrögð. „Ég hef heyrt að þetta hafi verið ótrúlega vel gert, bæði hjá björgunarsveitinni og þeim sem voru með mér. Viðbrögð þeirra voru fullkomin.“

Hann var ekki lengi án meðvitundar. „Ég hef heyrt ég hafi verið með meðvitund meðan verið var að búa um mig á börurnar og tekið nokkrar eftirhermur í sandinum.“

Hann var fluttur með sjúkrabíl upp í Egilsstaði og þaðan með flugvél á Landsspítalann þar sem hann rankaði við sér nokkrum dögum síðar.

Hélt í gleðina í gegnum fótboltann

Slysið kom hins vegar ekki í veg fyrir að Óttar færi ásamt vinum sínum á Evrópumótið í knattspyrnu í Frakklandi þremur vikum síðar, eins og löngu hafði verið skipulagt. „Ég man aldrei eftir öðru en að hafa ætlað til Frakklands. Ég var með góða menn með mér þar.

Eftir á að hyggja var dálítið tilætlunarsamt að fara því ég þurfti aðstoð við býsna margt með báðar hendur brotnar í spón, þar af aðra sem gat ekki haldið á penna. Þeir redduðu því sem þurfti og hafa ekki kvartað mikið síðan. Það var geggjað að vera þarna, ég er ánægður með að hafa látið af því verða.“

Óttar notaði líka fótboltann til að halda í gleðina eftir slysið. Í fyrsta lagi var ferðin til Frakklands upplyfting, í öðru lagi fylgdi hann eftir Ungmennafélagi Borgfirðinga í utandeildinni, þótt hann gæti ekki spilað. „Ég var þjálfari og það gaf mér helling að gera og hugsa um þannig mér fannst ég ekki bara sitja og bíða.“

Óttar er formaður UMFB og veitingamaður í Fjarðarborg. Þar er sumarið að hefjast og litast af 100 ára afmæli ungmennafélagsins. Byrjað verður á tónleikum með Jónasi Sig annað kvöld, aðalhátíðin verður um miðjan júlí og loks Stórurðarhlaup viku síðar.

„Ég hef sagt að við þurfum að gera afmælið þannig að fólk tali um það eftir 50-60 ár, á 150 ára afmælinu.“

Óttar Már á Landsspítalanum daginn eftir slysið. Mynd: Helga Björg Eiríksdóttir

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.