Seldu alltaf eina plötu fyrir hvert skítkast virkra í athugasemdum

Ljóðapönksveitin Austurvígstöðvarnar er að leggja lokahönd á plötu sína Útvarp Satan og mun afraksturinn koma fyrir almenningssjónir í sumar. Þórunn Gréta Sigurðardóttir, hljómborðsleikari sveitarinnar, er í yfirheyrslu vikunnar.


„Vonandi taka bara einhverjar búðir við henni, en eins og við vitum, þá hafa plötur varla sést í búðum síðan á tíunda áratug síðustu aldar. Við höldum í þá einlægu von að hljómflutningstæki teljist enn meðal staðalbúnaðar á heimilum, í versta falli utanáliggjandi geisladrif,“ segir Þórunn Gréta og bætir því við að hægt sé að leggja inn pantanir á Facebook-síðu sveitarinnar.

„Bátar sem þola ekki velting eru lélegir og mega sökkva“
Væntanleg plata hefur verið nokkuð umdeild í fjölmiðlum. „Það fyndnasta við það var að fyrir hvert einasta skítkast sem við fengum frá virkum í athugasemdum seldum við eina plötu. Það má auk þess segja að Útvarp Saga, okkar helsti andstæðingur, hafi auglýst þetta fyrir okkur, fyrir utan að gefa okkur hugmyndina að titlinum á plötunni.

En varðandi boðskapinn, þá er alltaf jákvætt að geta vakið fólk til umhugsunar, sama hvernig hún er sprottin. Svo bara lifum við eftir því mottói að það á að rugga bátum. Bátar sem þola ekki velting eru lélegir og mega sökkva. Það má því segja að þetta verkefni sé í og með öryggisprófun á bátum innan samfélagsins. Ef einhver bátur þolir ekki ágjöf frá þriggja mínútna pönklagi, þá segir sig sjálft að hann er stórhættulegur.“

Sveitin er komin til þess að vera
Þórunn Gréta segir sveitina komna til að vera. „Að sjálfsögðu, annars hefði hún lognast út af þegar við Davíð fluttum til Reykjavíkur. Þetta var bara alltof gaman til þess að hætta. Við höfum þurft að hafa töluvert fyrir því að halda henni gangandi milli landshluta, en það er fullkomlega þess virði. Við værum til í að hittast miklu oftar til að æfa og semja.“


Fullt nafn: Þórunn Gréta Sigurðardóttir.

Aldur: 37 ára.

Starf: Tónlistarkona.

Maki: Davíð Þór Jónsson.

Börn: Signý og Ægir. Davíð á auk þeirra Huldu, Ísold og Núma.

Hvað ætti ævisagan þín að heita? Sveimhugi á sveimi týnir húslyklunum.

Hvaða bíómynd hefurðu séð oftast? Rocky Horror trónir líklega á toppnum þótt langt sé um liðið.

Hvað var í tísku þegar þú varst yngri en er það ekki lengur? Kraftgalli. Líklega skynsamlegasta tískuvara allra tíma.

Yfir hverju getur þú alltaf hlegið? Fyndni er bara yfir og allt um kring, veltur á samhengi og tímasetningum.

Hver er þinn helsti kostur? Edrú alla daga.

Hver er þinn helsti ókostur? Fullkomnunarárátta.

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Í Runu á Borgarfirði.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Shoplifter, Hrafnhildur Arnardóttir, myndlistarkona.

Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum? Þá myndi ég eyða græðgi. Flest vandamál heimsins eru afleiðingar hennar.

Hvaða ósið hefur þér reynst erfiðast að hætta? Safna drasli, ég þarf að læra að henda hlutum.

Hvaða lag hefðir þú viljað hafa samið? Heyr, himnasmiður.

Hver er tilgangurinn með þessu jarðlífi? Drekka kaffi og láta gott af sér leiða.

Ef þú þyrftir að eyða 100 þúsund kalli á klukkutíma, í hvaða verslun færirðu? Raftækjaverslun og keypti mér ísskáp, sá gamli er alveg að gefast upp, greyið.

Hvað er í töskunni þinni? Það á að vera tölva, fisherman’s friend, kaffimál, peningaveski, sími og húslyklar en stundum týnist þetta.

Hvað eru Austurvígstöðvarnar fyrir þér? Frábær félagsskapur með hjartað og heilann á réttum stað. Allt gott verður síðan enn betra þegar tónlist er bætt við.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.