Orkumálinn 2024

Raunveruleikinn oft flóknari en ímyndin gefur til kynna

„Mig langaði að gera stórt verk, eitthvað sem væri Vá!,“ segir Héraðsbúinn Heiðdís Halla Bjarnadóttir, sem var að klára nám í grafískri hönnun við Myndlistarskólann á Akureyri. Heiðdís Halla var í opnuviðtali Austurgluggans fyrir helgi.



Heiðdís Halla mun í sumar taka þátt í spennandi verkefni sem snýr að því að hanna útlit fyrir þrjá helstu viðburði Akureyrar; Jónsmessuhátíð, Listasumar og Akureyrarvöku, í samvinnu við grafíska hönnuðinn Krístínu Önnu Kristjánsdóttur og vöruhönnuðinn Almar Alfreðsson, sem einnig er verkefnastjóri hátíðanna.

Lokaverkefni Heiðdísar Höllu úr náminu var flennistór textíl-sjálfsmynd, gerð með svokallaðri Flos-aðferð, sem einnig er kallað að smyrna eða rýa.

„Mig langaði alltaf að vinna með textíl, það bara var eitthvað sem ég varð að gera. Ég hefði getað ákveðið að vera praktísk og hanna eitthvað sem væri hægt að nýta áfram en ég ákvað bara að gera akkúrat það sem mig langaði. Ég átti töluvert af garni og stór hluti af því kom frá föðursystur minni heitinni, en hún var mjög listræn og hafði gott auga fyrir litum og áferð, það var ánægja og heiður að fá að vinna með efnið frá henni. Ég ætlaði mér líka að tengja verkið við grafísku hönnunina og því er útfærslan á myndinni í svokölluðum WPAP-stíl.

Verkið er tvíhliða, þar sem hvor hlið myndarinnar er sjálfstætt verk. Á framhlið verksins er slétt og felld mynd af mér, áhorfandanum er þó ljóst að eitthvað meira býr að baki þar sem skuggi þráðanna af bakhliðinni sést í gegn. Sé myndin skoðuð frá hinni hliðinni kemur svo í ljós að ekki er allt sem sýnist. Endarnir eru missíðir og sumir flæktir. Þá er túlkunaratriði hvort ef til vill sé meira í fólk spunnið en við fyrstu sýn eða hvort raunveruleikinn sé oft flóknari en ímyndin gefur til kynna.“

Myndin er mjög stór, meter sinnum einn og hálfur. „Ég hélt að þetta væri nú lítið mál en þetta tók rosalegan tíma. Ég byrjaði á því að mæla strammann út og setti hann upp í tölvunni svo ég gæti talið myndina út. Ég byrjaði svo að smyrna í páskafríinu en svo kom að því að ég áttaði mig á að ég myndi aldrei ná að klára nema með hjálp. Hana fékk ég svo sannarlega, meðal annars frá systur minni sem kom fljúgandi frá Reykjavík og svo vinkonum mínum sem sátu sveittar með mér á lokasprettinum að fylla út í ókláraða fleti. Foreldrar mínir pössuðu barnið þegar Ingi þurfti að skreppa til útlanda, annars sá hann alveg um heimilið þennan mánuð sem verkefnið tók. Ég er mjög ánægð með útkomuna og ég náði því sem ég ætlaði mér, þessum „vá-effekt“. Mig langar að gera fleiri svona verk og hreinlega klæjar í puttana að fara strax af stað aftur, þó ekki undir tímapressu svo ég geti klárað verkið sjálf og notið vinnunnar betur.“

Viðtalið í heild sinni má lesa í Austurglugganum. 

Heiðdís Halla og lokaverkefnið

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.