Ræktar blóm og börn

„Það er bara eitthvað svo heilandi við að vasast í mold og plöntum, svo notarleg og skemmtileg vinna - en ég tala nú ekki við blómin, í það minnsta ekki upphátt,“ segir Anna Heiða Gunnarsdóttir, eigandi Blómahornsins á Reyðarfirði.



Anna Heiða er garðyrkjufræðingur að mennt, en hún útskrifaðist frá Garðyrkjuskólanum á Reykjum árið 2000. Fyrstu árin eftir námið vann hún í Sólskógum á Egilsstöðum.

„Ég keyrði á milli og kom alltaf heim með fullan bíl af blómum og seldi hér seinnipartinn,“ segir Anna Heiða, en á þeim tíma ráku Sólskógar bæði garðyrkjustöð á Egilsstöðum og Reyðarfirði. Frá árinu 2007 hefur Anna Heiða leigt rekstuinn á Reyðarfirði þar sem hún var með opið yfir sumartímann en starfað við Grunnskóla Reyðarfjarðar á veturna. Í vetur keypti hún húsin af Sólskógum sem hafa nú flutt starfsemi sína til Akureyrar.

Anna Heiða selur sumarblóm, tré, runna, fjölær blóm og kryddjurtið og fleira. Einnig forræktar hún kál og aðrar matjurtir. Hún segist finna fyrir auknum áhuga á garðyrkju og aukinni sölu milli ára. „Fólk er að kaupa meira og kemur allstaðar að úr fjórðungnum. Ég finn einnig fyrir auknum áhuga á heimaræktun á káli og grænmeti, en auðvitað eru sumarblómin alltaf vinsælust.“ Anna Heiða segir marga þó klikka á aðalatriðinu. „Það er ekki nóg að byggja pall og skjólveggi, það verður að gróðursetja tré með til þess að fá almennilegt skjól, það munar alveg ótrúlega miklu þó ekki sé nema eitt tré.“

Draumurinn að geta aðeins unnið við þetta
Anna Heiða segir að garðyrkjan hafi alltaf verið hennar draumur. „Það er eitthvað svo gott við það að rækta, en þetta passar mjög vel með vinnunni í skólanum – þetta eru algerar andstæður en samt ekki, ég rækta blóm hér og hugsa um börnin í skólanum. Þar er fjöldinn, hér er einveran. Þar er fjörið en það er alltaf einstaklega róandi að koma hingað eftir skóladaginn.“

Anna Heiða hefur hefur sett sér markmið. „Draumurinn er að geta engöngu unnið við þetta og planið mitt er að fara að rækta meira af trjám og runnum svo ég geti lengt vinnuna hérna yfir árið.“

Hér er Facebooksíða Blómahornsins. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.